Handbolti

Agnar Smári: Þessi var fyrir Svenna í kertaverksmiðjunni

Tómas Þór Þórðarson í Laugardalshöll skrifar
Agnar Smári fagnar vel og innilega í leikslok.
Agnar Smári fagnar vel og innilega í leikslok. vísir/þórdís
Það var létt yfir stórskyttunni Agnari Smára Jónssyni þegar Vísir reif hann úr myndatöku eftir bikarsigurinn í dag í spjall. Hann hélt á stóra bikarnum og var beðinn um að lýsa því hvernig það væri að halda á honum.

"Þetta er alveg magnað. Ég veit ekki hvað ég á að segja. Þetta er alveg ruglað," sagði Agnar léttur.

ÍBV-liðið lenti undir í fyrri hálfleik en kom til baka og hefði getað unnið sannfærandi sigur en raun bar vitni.

"Við verðum ekkert stressaðir. Eins og við segjum alltaf: Við gefumst aldrei upp. Þannig bara virka Eyjamenn. Við hættum aldrei," sagði Agnar.

"Við spiluðum ekki vel í fyrri hálfleik og lentum undir en vorum samt með jafna stöðu í hálfleik. Í seinni hálfleik var allt annað sjá okkur og við hefðum getað komist sex mörkum yfir nokkrum sinnum. Kolli var líka frábær í markinu."

Eyjamenn spiluðu með sorgarbönd í gær og í dag: "Þetta er fyrir hann Svenna í kertaverksmiðjunni sem var alveg frábær stuðningsmaður."

Stuðningurinn sem ÍBV fékk í leiknum var magnaður. Getur liðið tapað leik þegar hálf Eyjan er mætt til að styðja þá?

"Nei, er þetta í alvöru spurning. Nei, það er ekki séns," sagði Agnar og hló, en hvað er næst hjá Íslands- og bikarmeisturunum?

"Evrópumeistarar, er það ekki bara? Nei, við erum fallnir úr henni. Ætli við gerum bara ekki okkar besta."


Tengdar fréttir




Fleiri fréttir

Sjá meira


×