Handbolti

Gunni Magg: Besta ákvörðunin á ferlinum að taka við ÍBV

Tómas Þór Þórðarson í Laugardalshöll skrifar
Gunnar og strákarnir hans á liðsmyndinni eftir sigurinn.
Gunnar og strákarnir hans á liðsmyndinni eftir sigurinn. vísir/þórdís
"Þetta er ótrúlegt," sagði sigurreifur Gunnar Magnússon, þjálfari ÍBV, við Vísi eftir bikarsigur Eyjamanna í dag, en hann hefur nú stýrt ÍBV til Íslands- og bikarmeistaratitils á tveimur árum.

"Þetta eru mest allt heimamenn í liðinu og alveg ótrúlegir strákar. Fólkið líka sem er á bakvið þetta og fólkið sem fylgir okkur er einstakt. Þetta er bara ein stór liðsheild. Þegar við hópum okkur saman er erfitt að stoppa okkur," sagði Gunnar.

Eftir brekkuna sem liðið þurfti að komast upp í undanúrslitaleiknum hafði Gunnar ekki miklar áhyggjur þegar liðið lenti fjórum mörkum undir í fyrri hálfleik.

"Við lendum í stórri brekku í gær en fórum í gegnum það. Það eru margir sem brotna við svona mótlæti en við brotnum aldrei. Ég var samt auðvitað stressaður undir lokin. Við fengum ótrúleg færi til að klára þetta en Ágúst var frábær í markinu hjá FH," sagði Gunnar Magnússon sem siglir nú heim til Eyja með bikarinn.

"Ég mæli með því að fólk komi bara með með. Eyjamenn kunna að taka á móti fólki. Ég hef gert þetta einu sinni áður og það var alveg ótrúlegt."

Gunnar kom heim úr atvinnumennsku sem þjálfari til að taka við ÍBV. Er það besta ákvörðunin sem hann hefur tekið á ferlinum.

"Já, það er auðvelt svar," sagði Gunnar Magnússon.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×