Emil Hallfreðsson, landsliðsmaður í knattspyrnu, birti á mánudaginn á Instagram-síðu sinni nýtt húðflúr sem hann lét gera á framhandlegg sinn.
Þar skartar hann nú glæsilegu flúri sem er gert eftir mynd af föður hans, Hallfreði Emilssyni, sem lést fyrir aldur fram í september á síðasta ári. Gunnar V, húðflúrlistamaður, ferðaðist til Verona, þar sem Emil spilar, til að flúra landsliðsmanninn.
„Ég var svo heppinn að fá boð til Ítalíu til að flúra Emil Hallfreðsson. Ég verð hér í viku og þvílík borg. Þetta er húðflúr af föður hans sem lést nýlega. Þvílíkur heiður að vera treyst til að gera þetta flúr,“ segir Gunnar V á Facebook-síðu sinni þar sem hann birtir einnig myndir af flúrinu.
Sjálfur fagnar Emil því að Gunnar hafi komið til Verona. „Ótrúlega gaman að Gunnar V skuli hafa gefið sér tíma og kíkt á mig til Verona og flúrað portrait af pabba mínum svona snilldarlega á mig. Minningin um besta pabba í heimi lifir,“ skrifar hann á Instagram.
Emil og Hallfreður voru mjög nánir, en hann talaði mikið um faðir sinn og andlát hans í kringum landsleiki Íslands gegn Lettlandi og Hollandi í september. Þrátt fyrir mikið áfall gaf Emil kost á sér í leikina og spilaði frábærlega.
„Kannski hefur pabbi verið með mér hérna í síðustu leikjum. Mig langaði að spila fyrir hann. Eftir hvern einasta leik finn ég fyrir nærveru hans í hjarta mínu,“ sagði Emil við Vísi eftir sigurinn á Hollandi.
Emil skoraði svo í lok október glæsilegt mark fyrir Hellas Verona á móti Napoli í ítölsku A-deildinni og táraðist nánast af gleði, en þegar hann fagnaði horfði Emil til himins og tileinkaði föður sínum markið.
„Það var erfitt að þurfa að kveðja hann sem föður og minn besta vin í lífinu. Ég mun halda minningu hans á lofti en um leið halda áfram að lifa lífinu. Það hefði hann viljað,“ sagði Emil við Vísi fyrir leik Lettlands og Íslands.
Emil hefur spilað frábærlega fyrir Hellas Verona að undanförnu sem eru góð tíðindi fyrir íslenska landsliðið, en það mætir Kasakstan í undankeppni EM 2016 í lok mánaðarins. Þar verður Emil vafalítið í stóru hlutverki eins og alla undankeppnina.
Fótbolti