Innlent

Geirvörtusundið í Laugardal: Um þúsund manns mættu í Laugardalslaugina

Atli Ísleifsson skrifar
Karen Björk Eyþórsdóttir er ein þeirra sem skipulagði viðburðinn.
Karen Björk Eyþórsdóttir er ein þeirra sem skipulagði viðburðinn.
„Þetta var yndislegt og alveg ótrúleg sjón,“ segir Karen Björk Eyþórsdóttir, einn skipuleggjenda hópferðar sem farin var í Laugardalslaug í kvöld í tengslum við #freethenipple.

Karen Björk segist hafa rætt við starfsmenn Laugardalslaugar þegar hún hafi komið upp úr lauginni og að þeir hafi slumpað á að frá klukkan 20 hafi laugargestir talið um þúsund. Ef talið var frá klukkan 18 hafi þeir verið um 1.200.

„Ég er í skýjunum með hvernig til tókst. Þetta var stórt skref fyrir margar og það var frábært hvað við fundum fyrir öflugri stemmningu og mikilli stemmningu. Það sköpuðust miklar umræður.“

Þessi hópur mætti í Laugardalslaugina á fimmtudaginn.V'isir/Vilhelm
Karen Björk segir að töluverður fjöldi kvenna hafi verið berbrjósta í lauginni. „Þær voru heldur ekki að hópa sig saman. Þær voru á vappinu, í rennibrautinni, í stóru lauginni, innilauginni og pottunum. Þetta eru mjög kjarkaðar konur.“

Hún segir að þær hafi fengið mjög góðar viðtökur og að viðburðurinn hafi vakið mikla athygli ferðamanna. „Það er til að mynda mjög stór hópur breskra ferðamanna sem er nú í sjokki,“ segir Karen Björk létt í bragði. Hún segir að meirihluti sundlaugargesta í kvöld hafa verið karlmenn.

Karen Björk segir þetta þó bara vera byrjunina. „Við bíðum spenntar eftir sumrinu. Það verður sérstakur viðburður á Austurvelli þann 1. Júní þar sem stendur til að frelsa geirvörtuna.“


Tengdar fréttir




Fleiri fréttir

Sjá meira


×