Innlent

Ætla berbrjósta í Laugardalslaugina og vilja þig með

Kolbeinn Tumi Daðason skrifar
Hanna María Geirdal.
Hanna María Geirdal.
Þrjár íslenskar stúlkur, sem urðu fyrir því að Facebook eyddi út #FreeTheNipple viðburði á þeirra vegum, standa fyrir sundferð í Laugardalslaugina í kvöld. Hvetja þær alla til að láta sjá sig og flagga fögrum brjóstum.

Hanna María Geirdal stendur fyrir viðburðinum ásamt Karen Björt Eyþórsdóttur og Guðbjörgu Ríkey Thoroddsen Hauksdóttur. Reikna má með góðum viðtökum aðstandenda laugarinnar líkt og Vísir fjallaði um fyrr í dag.

„Auk þess verður önnur sundferð næstkomandi sunnudag, en fólki er frjálst að fara í hvaða sundlaug sem er,“ segir Hanna María í samtali við Vísi. Hanna María er meðstjórnandi í skólafélagi MR en #FreeTheNipple dagurinn er einmitt haldinn hátíðlegur í skólanum í dag.

Stelpurnar hafa stofnað til nýs Facebook-viðburðar en prófílmyndin með viðburðinum er af karlkynsbrjóstum. Fróðlegt verður að sjá hvort viðburðurinn fær að standa.

Þær stöllur ætla svo aftur í sund á sunnudagskvöldið og hvetja fólk til að skella sér með.

„BRJÓSTIN MÍN TILHEYRA MÉR - EKKI KLÁMVÆÐINGUNNI!“ eru skilaboð sem stelpurnar senda til fólksins en viðburðinn má nálgast hér.


Tengdar fréttir




Fleiri fréttir

Sjá meira


×