Á þessum tíma árs nær umfang hafíss í Norðuríshafi vetrarhámarki. Á dögunum urðu vísindamenn vitni að því þegar þetta hámark náði sögulegum lægðum.
Hlýnun Jarðar er hvað mest á norðurslóðum og Norðurskautið er góður mælikvarði á þessar breytingar. Þegar vetrarís nær hámarki tekur hann að bráðna og í sumar nær hann lágmarki sínu. Minni vetrarís er traust vísbending um um lítinn ís í lok sumars.

„Það er minni ís framleiddur í vetur, þegar hann er í hámarki,“ segir Björn Erlingsson, hafeðlisfræðingur. „Þá er minna sem kemur inn á sumarið til bráðnunar og hafið er þá opnara í sumar og þá höfum við nauðsynlega forsendu fyrir því að það verði lítill ís í lok sumars.“
Vísindamenn eru sannfærðir um að bráðnun hafís sé knúin áfram af loftslagsbreytingum. Áætlað er að höfin gleypi 70-80% af hlýnun Jarðar, ef litið er til orkumagns. Áhrifin eru margþætt. Allt frá nýjum siglingaleiðum yfir sumarmánuði, til mögulegra áhrif á veðurfar.

Sem dæmi um breytingar á pólhafinu nægir að horfa á uppbrot í Beaufort-hafi. Í myndskeiði sem háskólinn í Delaware tók saman í mars árið 2013 sést hvernig ísbreiðan hrynur í sundur í mars og febrúar.
„Ef við setjum þetta í samhengi þá er rúmmál af ísi í pólhafinu í desember svipað og var í sumar-lágmarki 1979. Þannig að það er orðið sumarástand um miðjan vetur samanborið við 1979,“ segir Björn.
Eðli málsins samkvæmt getur hafís og bráðnun hans ekki orðið til þess að hækka sjávarborð. Þar með er ekki sagt að bráðnun ísmassa sé ekki áhyggjuefni. Stærra og opnara hafsvæði gleypir meira sólarljós en það sem þakið er hafís. Svæðið hitnar í kjölfarið og sú staðreynd skiptir sannarlega máli þegar framtíð Grænlandsjökuls er annars vegar.

Björn segir nýfallið met vetraríssins í pólhafinu ekki koma á óvart. Minnkunin sé stöðug. Þetta á bæði við um útbreiðslu og ísmassa – það er þynnra sem er eftir.

„Alveg frá 2007 hefur mér fundist þetta vera hamfarakenndar breytingar í pólhafinu,“ segir Björn. „Hafísinn hefur orðið merki loftslagsbreytinga. Það er eiginlega synd til þess að vita að við getum skilið þetta betur með rannsóknum og svarað þessari spurningu um hvort að þetta haldi áfram.“