Aðstæður á leitarsvæðinu hafa reynst leitarmönnum erfiðar.Vísir/EPA
Leitarmenn hafa fundið líkamsleifar 78 einstaklinga úr Germanwings flugvélinni sem brotlenti í Ölpunum síðasta þriðjudag. Alls voru 150 manns í vélinni. Vísindamenn bera DNA sem finnst á vettvangi saman við ættingja farþeganna í hreyfanlegri rannsóknarstöð sem staðsett er þar nærri.
Þar á meðal hefur því verið haldið fram að búið sé að finna líkamsleifar Andreas Lubitz, aðstoðarflugmanns vélarinnar, sem mun hafa brotlent henni viljandi.
Yfirleitt eru tannlæknaskýrslur notaðar til að bera kennsl á fólk sem lætur lífið í flugslysum. Rannsakendur segja það þó ekki hægt að þessu sinni.Vísir/GettyRannsakendur segja leitina vera mjög erfiða vegna aðstæðna og vegna þess hve mikilli ferð flugvélin var á þegar hún flaug á fjallið. Leitarmenn hafa hingað til ekki fundið eitt lík í heilu lagi. Yfirleitt eru tannlæknaskýrslur notaðar til að bera kennsl á lík í flugslysum, en það hefur ekki reynst mögulegt í þessu tilviki.
Samkvæmt Sky News stendur til að leggja veg upp að slysstaðnum, til að auðvelda vinnuna við að flytja brak úr vélinni og fleira til byggða. Fjölmargir leitarmenn eru enn við störf á slysstaðnum, en þeir leita að öðrum flugrita vélarinnar og líkamsleifum farþega og starfsmanna.
Fjallshlíðin hallar 40 til 60 gráður á svæðinu og leitarmenn segja jörðina gefa eftir þeim og að grjóthrun sé reglulegt. Því segja leitarmenn að leitin gangi hægt fyrir sig.