Erlent

Góðgerðarsjóður Clinton vill ekki peninga frá hverjum sem er

Aðalsteinn Kjartansson skrifar
Aðeins sex stjórnvöldum heimilt að styrkja góðgerðarsjóð Bill Clinton og fjölskyldu.
Aðeins sex stjórnvöldum heimilt að styrkja góðgerðarsjóð Bill Clinton og fjölskyldu. Vísir/EPA
Góðgerðarsjóður Bill Clinton, fyrrverandi forseta Bandaríkjanna, hefur sett takmarkanir á hvaða þjóðir mega styrkja sjóðinn. Aðeins er tekið við framlögum frá sex þjóðum sem þykja óumdeildar í afstöðu sinni til mannréttinda.

Ákvörðunin er tekin í beinu framhaldi af því að eiginkona hans, Hillary Clinton, fyrrverandi utanríkisráðherra, tilkynnti um framboð sitt til forseta. Hún sat í stjórn góðgerðarsjóðsins allt þangað til í síðustu viku.

Sjóðurinn hefur verið gagnrýndur fyrir að taka við fjárframlögum frá ríkisstjórnum í Mið-Austurlöndum þar sem mannréttindi eru ekki virt og kúgun kvenna látin viðgangast. Hefur það verið notað af andstæðingum Hillary í aðdraganda framboðs hennar.

Samkvæmt AP fréttastofunni verður stjórnvöldum í Ástralíu, Kanada, Þýskalandi, Hollandi, Noregi og Bretlandi áfram heimilt að gefa fé til sjóðsins. Þessi lönd hafa áður styrkt sjóðinn.

Auk þeirra hafa stjórnvöld í Sádi Arabíu, Katar, Óman, Sameinuðu arabísku furstadæmunum, Alsír, Kúveit, Ítalíu, Brúnei, Taívan og Dóminíska lýðveldið styrkt sjóðinn. Ekki verður tekið við framlögum frá þeim ríkjum hér eftir.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×