Innlent

Pawel hvattur í forsetaframboð

Bjarki Ármannsson skrifar
Pawel segist ekki hafa leitt hugann alvarlega að því að bjóða sig fram til forseta.
Pawel segist ekki hafa leitt hugann alvarlega að því að bjóða sig fram til forseta. Vísir
Þónokkrir notendur Twitter komu sér í gær saman um að skora á stærðfræðinginn Pawel Bartoszek að bjóða sig fram til forseta Íslands á næsta ári. Notast var við kassamerkið #Pawel2016.

„Já, ég sá það,“ segir Pawel í dag. „Það er aldrei leiðinlegt ef einhver vill að maður geri eitthvað ábyrgðarfullt.“

Pawel skrifaði skoðanagreinar í Fréttablaðið um árabil sem nutu talsverðra vinsælda. Greinar hans lýstu margar frjálslyndum stjórnmálaviðhorfum og því kemur kannski ekki á óvart að meðal þeirra sem lýsa yfir stuðningi við hann á Twitter eru nokkrir meðlimir Sjálfstæðisflokksins, til að mynda Gísli Marteinn Baldursson og Áslaug Arna Sigurbjörnsdóttir.

„Ég þekki eitthvað af þessu fólki,“ segir Pawel. „Manni finnst þetta pínku fyndið og skemmtilegt.“

Pawel segist ekki hafa leitt hugann alvarlega að því að bjóða sig fram til forseta.

„Ég hef ekki haft aldur til að gera þetta hingað til,“ segir hann, en frambjóðendur til forsetaembættisins þurfa að hafa náð 35 ára aldri. „Ég er það nú ekki ennþá en ef kosningarnar verða þegar þær eiga að vera, þá horfir öðruvísi við.“


Tengdar fréttir




Fleiri fréttir

Sjá meira


×