Handbolti

Björgvin Páll: Serbar hafa stórar skyttur sem við höfum ekki

Ingvi Þór Sæmundsson skrifar
Íslenska landsliðið í handbolta á fyrir höndum gríðarlega mikilvæga leiki gegn Serbíu í undankeppni EM 2016 í Póllandi.

Íslenska liðið er með tvö stig eftir tvo leiki í riðlinum sem samanstendur af Svartfjallalandi og Ísrael, ásamt Serbíu. Ísland má ekki við því að misstíga í leikjunum gegn Serbum sem mæta með sitt sterkasta lið til Íslands.

„Handboltinn er orðinn svo jöfn íþrótt og það er mikið af góðum liðum. Þú getur ekki bókað sigur gegn neinum,“ sagði Björgvin Páll Gústavsson, markvörður íslenska liðsins, í samtali við Guðjón Guðmundsson í kvöldfréttum Stöðvar 2.

„Við höfum lent í miklum meiðslum, eins og þegar Aron datt út á síðasta móti. Við megum minna við slíkum meiðslum en aðrar þjóðir. Breiddin er þó alltaf að aukast og við þurfum að halda áfram að skila ungum leikmönnum upp í landsliðið,“ sagði Björgvin sem er meðvitaður um mikilvægi leikjanna gegn Serbíu.

„Við gerðum okkur þetta erfitt fyrir með því að tapa í Svartfjallalandi. Við þurfum að ná í tvo punkta gegn Serbum í Höllinni til að komast á EM.

„Þetta er hörkuverkefni. Maður hefur spilað með mörgum af þeirra leikmönnum í þýsku deildinni og þeir hafa í sínum röðum miklar skyttur sem við höfum ekki.

„Þeir eru með 5-6 leikmenn yfir tvo metra sem geta skotið á markið. Ég myndi alveg þiggja að hafa nokkra svona durga í landsliðinu,“ sagði Björgvin en viðtalið í heild sinni má sjá hér að ofan.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×