Innlent

Hver eru réttindi flugfarþega ef til verkfalla kemur?

Sunna Kristín Hilmarsdóttir skrifar
Frá Keflavíkurflugvelli.
Frá Keflavíkurflugvelli. vísir/vilhelm
Ívar Halldórsson, lögfræðingur Neytendasamtakanna, segir flugfarþega hafa ýmis réttindi ef til verkfalla starfsmanna í flugafgreiðslu á Keflavíkurflugvelli kemur.

Starfsmennirnir hafa boðað til tveggja sólarhringa verkfalls 31. maí og 1. júní eða í tvo sólarhringa, náist ekki samningar. Ótímabundið verkfall er boðað 6. júní.

Ef til verkfallsins kemur mun það hafa gríðarleg áhrif á flugsamgöngur og gæti þurft að fresta öllu flugi. Starfsmenn flugafgreiðsluaðila þjónusta flugfélög á Keflavíkurflugvelli meðal annars við eldsneytisafgreiðslu, innritun og að hlaða farangri um borð í flugvélar.

Ívar segir flugfarþega hafa ýmis réttindi ef flugi seinkar um ákveðinn tíma eða er aflýst.

„Í fyrsta lagi er það rétturinn til aðstoðar en það hvenær hann tekur gildi fer eftir því hversu löng flugferðin er í kílómetrum og hversu löng biðin er. Ef flugið er 1500 kílómetrar eða styttri „kikkar“ rétturinn inn ef biðin er tveir tímar eða lengri. Þegar flugið er 1500-3500 kílómetrar kemur rétturinn til skoðunar ef um er að ræða þriggja klukkustunda seinkun og svo er það fjögurra klukkustunda seinkun ef flugið er lengra en 3500 kílómetrar.“

Það sem felst í réttinum til aðstoðar er að flugrekanda ber að bjóða farþegum endurgjaldslaust máltíðir, hressingu og hótelgistingu ef þörf er á. Ef að flugi er svo aflýst hafa farþegar val um að fá flugmiðann endurgreiddan eða að fá breytingu á flugleið á kostnað flugfélagsins. Gildir þá einu hvers vegna fluginu er aflýst.

Rætt var við Ívar í Bítinu á Bylgjunni í morgun og má hlusta á viðtalið við hann í heild sinni í spilaranum hér að neðan.


Tengdar fréttir

Gæti þurft að fresta öllu flugi

Verkfall starfsmanna í flugafgreiðslu gæti haft alvarleg áhrif á flugsamgöngur, að sögn Guðna Sigurðssonar, upplýsingafulltrúa ISAVIA.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×