Innlent

„Við áttum bara að hlusta á blaðamannafundinn“

Sunna Kristín Hilmarsdóttir skrifar
Oddný G. Harðardóttir, þingmaður Samfylkingarinnar.
Oddný G. Harðardóttir, þingmaður Samfylkingarinnar. vísir/stefán
Róbert Marshall, þingmaður Bjartrar framtíðar, greindi frá því á Alþingi í dag að þingmenn hafi verið boðaðir á kynningarfund um losun hafta með níu mínútna fyrirvara. Fundurinn hófst klukkan hálftólf í dag en sagði Róbert að tilkynning um fundinn hafi komið klukkan 11.21.

Sagðist hann vita til þess að forseti Alþingis, Einar K. Guðfinnsson, hafi lagt mikið á sig til að af fundinum gæti orðið og þakkaði þingmaðurinn forsetanum fyrir það. Hins vegar sagði Róbert það vera vonbrigði að ríkisstjórnin hafi ekki planað slíkan fund og ráðgert að tala við stjórnarandstöðuna.

Undir þessi orð Róberts tók Bjargey Olsen Gunnarsdóttir, þingmaður Vinstri grænna. Sagði hún að eftir mikla eftirgangssemi af hálfu Svandísar Svavarsdóttur, þingflokksformanns Vinstri grænna, hafi það fengist í gegn að halda fundinn.

Sagði Bjarkey að ekki hafi gefist mikill tími til að spyrja spurninga um frumvörpin þar sem hálftíma síðar hafi blaðamannafundur ríkisstjórnarinnar vegna málsins hafist í Hörpu en þingmaðurinn sagði blaðamannafundinn hafa verið „skrautsýningu.“

„Ríkisstjórnin þarf að gera sér grein fyrir því að hún þarf á stjórnarandstöðunni að halda í þessu máli,“ sagði Bjarkey.

Þá kom fram í máli Oddnýjar G. Harðardóttur, þingmanns Samfylkingarinnar, að í gærkvöldi hafi staðan verið þannig að einungis hafi átt að kynna haftafrumvörpin fyrir þingflokkum stjórnarflokkanna en ekki sjórnarandstöðunnar.

„Við áttum bara að hlusta á blaðamannafundinn. [...] Upplagið er algjörlega óásættanlegt og ekki sæmandi þessu stóra máli og virðingu þingsins.“

Umræðuna á þinginu í dag má sjá hér að neðan.


Tengdar fréttir

Bjarni Benediktsson: „Mikil og ánægjuleg tímamót“

Bjarni Benediktsson, fjármála-og efnahagsráðherra, sagði á blaðamannafundi í hádeginu að stjórnvöld hafi reynt að nálgast vandamálið vegna hafta með það að leiðarljósi að koma með heildstæða lausn.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×