Handbolti

Ísland meðal fastagesta á EM

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Aron Pálmarsson átti frábæran leik þegar Ísland vann Svartfjallaland.
Aron Pálmarsson átti frábæran leik þegar Ísland vann Svartfjallaland. vísir/ernir
Íslenska karlalandsliðið í handbolta tryggði sér um helgina sæti á Evrópumótinu í handbolta með flottum tólf marka sigri á Svartfellingum í Höllinni og handboltaliðið kom Íslandi um leið í fámennan hóp handboltarisa álfunnar á þessari öld.

Strákarnir okkar hafa nú verið með á níu Evrópumótum í röð eða öllum Evrópukeppnum karlahandboltans á 21. öldinni. Því hafa aðeins fimm aðrar þjóðir náð eða Danmörk, Frakkland, Króatía, Spánn og Rússland sem öll eru með meira en fjórar milljónir íbúa.

Guðjón Valur Sigurðsson, fyrirliði íslenska liðsins, var með á EM í Króatíu 2000 og getur því tekið þátt í sínu níunda Evrópumóti eftir sex mánuði en Guðjón Valur verður 36 ára í ágúst.

Frakkar, Spánverjar, Króatar og Rússar hafa verið með á öllum Evrópukeppnum sögunnar og það breyttist ekki núna. Danir hafa bara misst af einu Evrópumóti (1998) alveg eins og Svíar (2006) og Þjóðverjar (2014). Ísland er í 10. sætinu á þeim lista.

Þjóðir sem hafa verið með á níu Evrópumótum í röð:

Ísland - 330 þúsund íbúar

Króatía - 4,3 milljónir

Danmörk - 5,7 milljónir

Spánn - 46,4 milljónir

Frakkland - 66,1 milljón

Rússland - 146 milljónir

Flest Evrópumót þjóða:

12 Evrópumót:

Króatía, Spánn, Frakkland, Rússland

11 Evrópumót:

Danmörk, Þýskland, Svíþjóð

10 Evrópumót:

Ungverjaland, Slóvenía

9 Evrópumót:

Ísland, Serbía


Tengdar fréttir

Endurreisnin fullkomnuð í Laugardalshöll

Íslenska landsliðið tryggði sér sæti á níunda Evrópumótinu í handbolta í röð með tólf marka sigri á Svartfjallalandi, 34-22, í Laugardalshöllinni í gær.

Aron: Vorum betri á öllum sviðum

"Mér fannst þeir ekki eiga nein svör við okkar sóknarleik og í raun varnarleik,“ segir Aron Pálmarsson, leikmaður Íslands.

Strákarnir vilja sópa upp eftir sig

Íslenska landsliðið í handbolta mætir Svartfellingum í úrslitaleik um efsta sæti riðilsins á sunnudag. Ólafur Stefánsson segir meiri einbeitingu í liðinu núna.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×