Hjúkrunarfræðingum var boðin tuttugu prósenta launahækkun en þeir fara fram á allt að fjörutíu til fimmtíu prósenta hækkun á næstu árum. Þetta kom fram í svari Bjarna Benediktssonar fjármálaráðherra við fyrirspurn Árna Páls Árnasonar, þingmanns Samfylkingar, í óundirbúnum fyrirspurnartíma á Alþingi í dag.
Umboð samninganefndarinnar víðtækt
Bjarni sagði samninganefnd ríkisins hafa verið veitt víðtækt umboð í kjaradeilunni. Tilboð þeirra hafi verið tuttugu prósenta launahækkun á næstu þremur árum og styrking á stofnun. „Ofan á þær almennu launahækkanir sem hlaupa á þeim tölum sem ég er hér að nefna, verði bætt fyrir gliðnun upp á 14-25 prósent á næstu þremur árum. Þannig að ég er í raun og veru ekki að tala um að krafan standi upp á 30 prósent heldur kannski nær 40 til 50 prósent þegar þetta er tekið með í reikninginn,“ sagði Bjarni.
Hann sagðist jafnframt geta fullyrt það að laun hjúkrunarfræðinga á Norðurlöndum væru ekki að fara að hækka um slíkar fjárhæðir. Langt sé í land með að jafna kjörin en það gerist ekki með einum samningi. „Við getum boðið verulegar kjarabætur og við getum boðið hér meiri stöðugleika en gilt hefur en það er ekki hægt að fallast á allar kröfur.“
Stefnuleysi í kjaramálum
Árni Páll sakaði ríkisstjórnina um í stefnuleysi í kjaramálum og sagði Bjarni Samfylkinguna leggjast á lágt plan í þessum umræðum. „Það virðist bara vera það að ganga að öllum kröfum eins og þeim er lýst. En það er ekki hægt að gera það, því miður. Það er ekki hægt,“ sagði hann og bætti við að hægt væri að ræða málið á þingi en þegar öllu sé á botninn hvolft verði samningarnir gerðir við samningaborðið.
Innlent