Nokkur hundruð manns mættu á þögul mótmæli sem BHM og Félag íslenskra hjúkrunarfræðinga boðuðu til í dag á Austurvelli. Þórunn Sveinbjarnardóttir, formaður BHM, segir hjóðið þungt í sínu fólki.
„Gærdagurinn olli okkur miklum vonbrigðum, að viðræðum var slitið eftir svona langan fund. Það var síðan „spontant“ ákvörðun að koma hingað á Austurvöll í dag og minna á að við erum til og viljum semja,“ segir Þórunn í samtali við Vísi.
Mikið hefur verið rætt um að lög verði mögulega sett á verkföll félagsmanna BHM og hjúkrunarfræðinga og segir Þórunn að það sé beinlínis búið að hóta því opinberlega.
„En við höldum nú enn í vonina að samningsrétturinn verði virtur og að við fáum að semja um kaup og kjör. Það er ekkert annað en ofbeldi að taka samningsréttinn af fólki,“ segir Þórunn og minnir á að hann er stjórnarskrárvarinn.
„Við erum bara komin hér í dag til þess að minna á kröfur og ekki síður það að við viljum semja um þær,“ segir Þórunn að lokum.
Minntu á kröfur sínar með þöglum mótmælum
Tengdar fréttir
Fréttaskýring: Fátt virðist geta komið í veg fyrir lög á verkföll
Viðræðum við BHM og hjúkrunarfræðinga lauk án árangurs í gær. Lagasetning virðist á næsta leiti.
BHM og hjúkrunarfræðingar boða til mótmæla í dag
"Þöglu mótmælin lýsa kannski því eins og við upplifum ríkið í þessum samningaviðræðum, þannig að það er kannski táknmynd viðræðnanna.“
Trúir á lýðréttindi þótt lagasetning beri á góma
Kjaraviðræður ríkisins og Bandalags háskólamann eru í algjörum hnút. Formaður samninganefndar BHM segir viðræðurnar síðustu daga hafa verið undir hótunum um lagasetningu sem virðist nú yfirvofandi.