Handbolti

Þórir leggur skóna á hilluna

Ingvi Þór Sæmundsson skrifar
Þórir fagnar marki í landsleik.
Þórir fagnar marki í landsleik. vísir/vilhelm
Handboltamaðurinn Þórir Ólafsson hefur lagt skóna á hilluna en þetta staðfesti hann á Facebook-síðu sinni.

Þórir var spilandi aðstoðarþjálfari hjá Stjörnunni í vetur en liðið féll niður í 1. deild. Að tímabilinu loknu gekkst Þórir undir aðgerð á hné og hefur nú ákveðið að hætta handboltaiðkun.

Þórir er frá Selfossi og lék með uppeldisfélaginu og svo með Haukum áður en hann gekk til liðs við Tus N-Lübbecke í Þýskalandi árið 2005.

Hann lék með þýska liðinu til 2011 þegar hann fór til Póllands og gekk í raðir Kielce. Þórir varð þrívegis pólskur meistari með liðinu og þrisvar sinnum bikarmeistari. Þá lék Þórir með Kielce í undanúrslitum Meistaradeildar Evrópu (Final Four) vorið 2013.

Þórir lék 112 landsleiki fyrir Ísland og skoraði í þeim 277 mörk.

Í Facebook-færslu sinni segir Þórir:

Nú liggur maður upp í sófa með bólgið hné eftir aðgerð og hugsar um góðar minningar úr boltanum og allt sem maður hefur áunnið á síðustu árum.

Takk fyrir stuðninginn kæru vinir ég held að þetta sé góður tími til að slaufa ferlinum, með einni "loka aðgerð" Búinn að vera langur og skemmtilegur ferill á nokkrum stöðum. Selfoss-Haukar-Luebbecke-Kielce-Stjarnan... Búinn að eignast marga vini á öllum þessum stöðum og á eftir að sakna þeirra.

Svo má ekki gleyma landsliðinu og öllum þeim snillingum sem maður fékk að umgangast þar. Ég er endalust stoltur að fá tækifæri til að spila fyrir Íslands hönd og hvað þá 112 sinnum....Takk fyrir mig!!




Fleiri fréttir

Sjá meira


×