Handbolti

Arna Sif bjargaði stigi fyrir Nice

Tómas Þór Þórðarson skrifar
Arna Sif fór frá Danmörku til Frakklands fyrir tímabilið.
Arna Sif fór frá Danmörku til Frakklands fyrir tímabilið. vísir/valli
Arna Sif Pálsdóttir og Karen Knútsdóttir, landsliðskonur í handbolta, skoruðu samtals fjögur mörk fyrir Nice sem gerði jafntefli, 24-24, við Issy Paris í frönsku 1. deildinni í kvöld.

Heimakonur í París voru þremur mörkum yfir í hálfleik, 13-10, og náðu mest fjögurra marka forskoti í seinni hálfleik, 21-17.

Nice tók að saxa á forskotið síðustu tíu mínúturnar og reyndist línutröllið Arna Sif hetja gestanna, en hún skoraði tvö síðustu mörk liðsins og tryggði því annað stigið.

Seinna markið skoraði hún þegar 46 sekúndur voru til leiksloka, en áður en kom að mörkunum tveimur var hún búin að brenna af þremur skotum.

Leikstjórnandinn Karen Knútsdóttir skoraði einnig tvö mörk úr fimm skotum fyrir Nice sem er í sjöunda sæti af tíu liðum með eftir fimm umferðir.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×