Innlent

„Mátti auðvitað búast við viðbrögðum“

sunna karen sigurþórsdóttir skrifar
Dagur B. Eggertsson borgarstjóri.
Dagur B. Eggertsson borgarstjóri. vísir/stefán
Dagur B. Eggertsson borgarstjóri segir hörð viðbrögð við ákvörðun borgarinnar um að sniðganga vörur frá Ísrael ekki hafa komið sér á óvart. Unnið sé að því að útfæra ákvörðina eins vel og hægt sé.

„Það mátti auðvitað búast við viðbrögðum við samþykkt borgarstjórnar en innkaupareglurnar okkar gera beinlínis ráð fyrir því að það sé tekið mið af umhverfis- og mannréttindarsjónarmiðum. Þannig að við erum á býsna traustum grunni í þessu,“ segir Dagur.

Mikilvægt að taka afstöðu með mannréttindum

„Þetta er auðvitað áratuga deilumál þar sem eru sterkar tilfinningar og ríkar skoðanir, en það breytir því ekki að borgarstjórn, eins og allir aðrir, verða að taka afstöðu með mannréttindum í hverju máli, hver sem í hlut á,“ bætir hann við.

Greint var frá því í dag að Evrópska gyðingaþingið íhugi nú að sækja rétt sinn fyrir Alþjóðaviðskiptastofnuninni á grundvelli stofnunarinnar sem Ísland og Ísrael eru aðilar að. Forseti þingsins sagði á vef þess í gær að aðgerðirnar mismuni gyðingum, og að þingið hafi nú leitað ráðgjafar um hvort þær standist alþjóðalög og sáttmála.

Ákvörðunin standist lög

Þá velti Gunnar Bragi Sveinsson utanríkisráðherra því fyrir sér í Fréttablaðinu í dag hvort ákvörðunin samræmist lögum um opinber innkaup. Dagur segir það liggja fyrir að ákvörðunin standist lög og reglur, það hafi legið fyrir frá upphafi. Nú sé unnið að því að útfæra samþykkt borgarstjórnar.

„Við erum á býsna traustum grunni á þessu, en útfærslan á þessu hjá okkur er líka eftir þannig að við munum vanda okkur í því eins og öðru. En ég treysti mér ekki til að tímasetja það, við skulum bara sjá hvernig þetta vinnst og munum leyfa öllum að fylgjast með því,“ segir Dagur.


Tengdar fréttir

Ráðherra segir sniðgöngu áhrifalausa

Utanríkisráðherra segir það hafa engin áhrif þótt borgin sniðgangi ísraelskar vörur. Hann efast um að ákvörðunin standist lög um opinber innkaup.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×