Innlent

Segir að fólk þurfi að vera samkvæmt sjálfu sér

Stefán Rafn Sigurbjörnsson skrifar
Kjartan Magnússon borgarfulltrúi Sjálfstæðisflokksins
Kjartan Magnússon borgarfulltrúi Sjálfstæðisflokksins
„Við teljum að þetta skili ekki miklum árangri,“ segir Kjartan Magnússon borgarfulltrúi Sjálfstæðisflokksins um stefnu Reykjavíkurborgar um að sniðganga vörur frá Ísrael.

„Ég held að þetta skili sjaldnast árangri samanber viðskiptabann Bandaríkjanna á Kúbu.“

Kjartan segir að tvískinnungir ríki í málinu á meðal borgarfulltrúa meirihlutans og að mannréttindabrot séu framin víðsvegar um heim. Vilji borgarfulltrúar sniðganga vörur frá einu landi sem stundar mannréttindabrot hljóti þeir að vilja sniðganga önnur ríki sem álíka brot eigi sér stað.

„Þar má til dæmis nefna Kína, sem er það land þar sem flest mannréttindabrot eru framin, samkvæmt skýrslum alþjóðlegra mannréttindasamtaka,“ segir Kjartan.

„Maður efast um að hugur fylgi máli þegar að borgarstjóri styður tillöguna en hann hefur til dæmis ítrekað farið í boðsferðir á vegum kínverskra stjórnvalda.“ 

„Að sjálfsögðu fordæmum við mannréttindabrot hvar sem þau eru brotin en við sem stjórnvald verðum að gæta samræmis,“ segir Kjartan. „Sérstaklega þegar við grípum til íþyngjandi aðgerða.“




Fleiri fréttir

Sjá meira


×