Innlent

„Okkar stærsta vandamál hvað launin í landinu eru lág“

Sunna Kristín Hilmarsdóttir skrifar
Valgerður Bjarnadóttir, þingmaður Samfylkingarinnar.
Valgerður Bjarnadóttir, þingmaður Samfylkingarinnar. Fréttablaðið/Daníel
Valgerður Bjarnadóttir, þingmaður Samfylkingarinnar, segist ósammála Bjarna Benediktssyni, fjármálaráðherra um ein helsta hættan sem steðji að hagkerfinu sé að laun hækki of mikið hér á landi.

„Ég held kannski að okkar stærsta vandamál sé í rauninni hvað launin í landinu eru lág og þá ekki síst þau lægstu og hvað kostnaðurinn við að vera til er mikill. Of stór hluti kökunnar fer til stóru fyrirtækjanna, stórbokkanna sem ég ætla að leyfa mér að kalla svo, og of lítill hluti til launafólks. Ekki er gert nóg til að styðja við litlu fyrirtækin,“ sagði Valgerður í umræðu um forsendur fjárlagafrumvarpsins á þingi í dag. Hún sagði þetta ástand kalla á kerfisbreytingu.

„Við þurfum að breyta því hvernig við skiptum gæðum þessa lands á milli þeirra sem eiga og hinna sem vinna og þiggja laun.“

Fjármálaráðherra tók til andsvara að lokinni ræðu Valgerðar vegna orða hennar um að hann hefði sagt laun hækka um og of.

„Það sem ég er að benda á í þeirri umræðu er að það eru ytri mörk á því hvað við getum hækkað laun mikið á hverjum tíma án þess að kalla yfir okkur verðbólgu og þar með hærra vaxtastig. Það eru bara efnahagslegar staðreyndir sem búa þar að baki að þeir sem hækka laun að jafnaði meira heldur en framleiðslan vex, þeir draga smám saman úr verðgildi gjaldmiðilsins,“ sagði Bjarni.

Hann sagði Íslendinga þekkja vel áratugalanga sögu af víxlverkunum launa og verðlags:

„Það sem ég hef verið að benda á að undanförnu er að nýlega gerðir kjarasamningar setja örugglega mikinn þrýsting á að þessi keðjuverkun fari af stað. Það þarf að bregðast við því en allt leiðir þetta mig að þeirri niðurstöðu að það þarf að breyta vinnumarkaðslíkaninu á Íslandi.“


Tengdar fréttir

Lofaði auknu fé til velferðarkerfisins

Sigmundur Davíð Gunnlaugsson sagði Ísland hafa náð sér óvenju hratt á strik efnahagslega og kallaði eftir alþjóðasamstarfi um móttöku flóttamanna í stefnuræðu á Alþingi. Birgitta Jónsdóttir sagði ekki vera stoð fyrir fallegum fyrirheitum ríkisstjórnarinnar í fjárlögum.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×