Körfubolti

Valskonur slátruðu Fjölni | Úrslit kvöldsins

Kristinn Páll Teitsson skrifar
Hallveig Jónsdóttir var atkvæðamest í Valsliðinu í kvöld.
Hallveig Jónsdóttir var atkvæðamest í Valsliðinu í kvöld. Vísir/Vilhelm
Valskonur einfaldlega slátruðu Fjölni í Fyrirtækjabikar kvenna í körfuknattleik í kvöld en leiknum lauk með 64 stiga sigri Vals.

Valskonur gerðu einfaldlega út um leikinn í fyrstu tveimur leikhlutunum en í hálfleik var staðan 50-16 fyrir Val. Bættu þær við forskotið í næstu tveimur leikhlutum og lauk leiknum með afar sannfærandi sigri.

Hallveig Jónsdóttir var atkvæðamest í Valsliðinu með 22 stig en Dagbjört Dögg Karlsdóttir og Bergþóra Holton Tómasdóttir bættu við átján stigum hvor.

Í liði Fjölnis var það Heiðrún Harpa Ríkharðsdóttir sem var atkvæðamest með ellefu stig ásamt því að taka niður tíu fráköst.

Það var heldur meiri spenna í leik Grindavíkur og Snæfells en þriðji leikhluti Grindavíkurliðsins skóp sigurinn.

Snæfell leiddi í hálfleik 32-25 en í þriðja leikhluta náðu Grindvíkingar tökum á leiknum og leiddu 50-47 að þriðja leikhluta loknum.

Snæfellskonum tókst að saxa á forskot Grindvíkinga í fjórða leikhluta en tókst ekki að stela sigrinum og lauk leiknum með tveggja stiga sigri Grindavíkur, 67-65.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×