Innlent

Segir borgarstjórn ekki hafa haft val um annað en að draga tillöguna til baka

Sunna Kristín Hilmarsdóttir skrifar
Björk Vilhelmsdóttir er manneskjan á bak við tillöguna um að sniðganga vörur frá Ísrael. Það var hennar síðasta verk í borgarstjórn að leggja hana fram.
Björk Vilhelmsdóttir er manneskjan á bak við tillöguna um að sniðganga vörur frá Ísrael. Það var hennar síðasta verk í borgarstjórn að leggja hana fram. Vísir/Vilhelm
Björk Vilhelmsdóttir, fyrrverandi borgarfulltrúi, segir að samstarfsfélagar sínir í borgarstjórn hafi ekki verið undirbúnir fyrir þau hörðu viðbrögð sem tillaga hennar um sniðgöngu á ísraelskum vörum vakti. Þetta segir Björk í viðtali við palestínskan vefmiðil en hún er nú á Vesturbakkanum þar sem hún sinnir sjálfboðastörfum.

Um síðustu tillögu Bjarkar í borgarstjórn var að ræða og var hún samþykkt í síðustu viku. Tillagan var síðan dregin til baka síðastliðinn þriðjudag á miklum hitafundi í borgarstjórn.

Sjá einnig: Erfið vika meirihlutans: Dagur í ákveðinni klípu



Í viðtalinu segir Björk að tilgangurinn með sniðgöngunni hafi verið „að senda skýr skilaboð til Ísrael um það að við erum meðvituð um hvernig þeir koma fram við Palestínumenn og við vitum að það er ekki í samræmi við alþjóðlega mannréttindasáttmála og lög.“

Borgarstjórn hafi viljað koma þessu á framfæri á friðsælan en áhrifaríkan hátt. Hún segir að sér þyki leitt að tillagan hafi verið dregin en að hún fyrirgefi fyrrum samstarfsfélögum sínum í borgarstjórn.

„Þeir höfðu ekki um neitt annað að velja enda voru þeir ekki undir það búnir að fá svona hörð viðbrögð frá Ísrael, Bandaríkjunum og þrýstihóp síonista,“ segir Björk. Hún hafi ekki getað ímyndað sér að fram myndu koma ásakanir um gyðingahatur borgarstjórnar.

Að mati Bjarkar er ljóst hvar ábyrgðin á þessum viðbrögðum liggur.

„Ég kenni ríkisstjórn Ísraels um. Að mínu mati er hún versti óvinur gyðinga því margir skilja ekki muninn sem er á milli gyðingatrúar og síonisma. Á þessu er þó mikill munur. Gyðingatrú er trú en síonismi er pólitísk hugmyndafræði sem aðskilnaðarstefna Ísraels sprettur úr.“


Tengdar fréttir




Fleiri fréttir

Sjá meira


×