Fótbolti

Margrét Lára: Þetta var Beckham-víti

Tómas Þór Þórðarson skrifar
Margrét Lára Viðarsdóttir er komin í 100 landsleikja klúbbinn.
Margrét Lára Viðarsdóttir er komin í 100 landsleikja klúbbinn. vísir/vilhelm
Margrét Lára Viðarsdóttir, fyrirliði og markahæsti leikmaður íslenska kvennalandsliðsins í fótbolta, spilaði sinn 100. landsleik í kvöld.

Stelpurnar okkar unnu Hvíta-Rússland, 2-0, í fyrsta leik undankeppni EM 2017. Hólmfríður Magnúsdóttir og Dagný Brynjarsdóttir skoruðu mörkin í sitthvorum hálfleiknum.

Margrét hefur skorað 72 landsliðsmörk á sínum ferli og gat skorað í þessum tímamótaleik þegar Ísland fékk vítaspyrnu. Ótrúlegt en satt þrumaði þessi mikla vítaskytta boltanum hátt yfir markið.

"Þetta var svona David Beckham-víti. Ég átti bara að kenna vellinum um," sagði Margrét Lára brosmild og kát við Vísi eftir leikinn. "Nei, nei. Þetta var bara illa tekið víti og ég tek það á mig."

Íslenska liðið var í sókn allan tímann gegn hvítrússneska liðinu sem hafði engan áhuga á að sækja í kvöld.

"Við hefðum getað unnið þetta stærra en þær mega eiga það, að þær spiluðu góða vörn. Það var erfitt að komast á bakvið þær og finna laus svæði. En þrjú stig er á endanum það sem skiptir máli," sagði Margrét Lára.

"Við spiluðum mjög vel á köflum og vorum komast fram völlinn og að spila boltanum eins vel og við gátum. Völlurinn er mjög erfiður og boltinn líka, hann skýst bara frá manni."

"Mér fannst við vinna vel úr aðstæðum. Við hefðum vissulega getað skorað fleiri mörk en það spyr engin að því þegar við verðum komnar til Hollands hvernig þessi leikur fór."

Margrét fékk heiðursskiptingu undir lok leiksins og var hálf klökk þegar Vísir spurði hana út í þessa stóru stund. Henni var svo ákaft fagnað í leikslok.

"Þetta er mjög stór stund. Ég þakka bara bara kærlega fyrir mig. Maður er hálf hrærður bara yfir þessu. Ég veit ekki alveg hvað ég get sagt. Ég er orðlaus," sagði Margrét Lára sem spilaði sinn fyrsta landsleik fyrir rúmum tólf árum.

"Ég er ótrúlega stolt af mínum ferli. Ég hefði viljað skora í dag en kannski átti ég bara inni að klúðra einu svona illa. Auðvitað vill maður alltaf gera vel og skora."

Mætingin á leikinn í kvöld var virkilega góð og mikil stemning í stúkunni. Tólfan var mætt og lét vel í sér heyra allan tímann.

"Ég er ótrúlega þakklát fyrir stuðninginn sem við stelpurnar fengum. Það er gott að vinna leikinn líka og þetta víti gleymist fljótt," sagði Margrét Lára Viðarsdóttir.


Tengdar fréttir




Fleiri fréttir

Sjá meira


×