Körfubolti

Keflavíkurkonur með yfir 80 prósent mætingu í úrslitaleikina

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Sandra Lind Þrastardóttir 	var með 14 stig og 11 fráköst fyrir Keflavík í gær.
Sandra Lind Þrastardóttir var með 14 stig og 11 fráköst fyrir Keflavík í gær. Vísir/Vilhelm
Kvennalið Keflavíkur og Hauka tryggðu sér í gær sæti í úrslitaleik Lengjubikars kvenna í körfubolta og mætast í úrslitaleiknum í Iðu á Selfossi á morgun.

Keflavík vann 80-76 sigur í spennuleik á móti Val en Haukakonur áttu ekki í miklum vandræðum í 96-49 sigri á Grindavík.

Keflavíkurkonur byrjuðu leikinn vel og enduðu hann vel. Keflavík komst í 28-13 í upphafi leiks og vann síðan síðustu níu mínúturnar 21-8 eftir að Valskonur höfðu náð níu stiga forskoti í upphafi fjórða leikhlutans.

Þetta verður þrettándi úrslitaleikur Keflavíkurliðsins í sextán ára sögu Fyrirtækjabikars kvenna og hafa þær nú spilað tvöfalt fleiri úrslitaleiki en næstu lið sem eru Haukar og KR.

Margrét Sturlaugsdóttir er þar með búin að skila Keflavíkurliðinu í fyrsta úrslitaleikinn sem var í boði á hennar fyrsta tímabili með liðið.

Margrét teflir fram mjög ungu liði sem sést vel á því að aðeins tveir leikmenn Keflavíkurliðsins í gær eru fæddar fyrir 1995 eða bandaríski leikmaðurinn Melissa Zorning og svo Bryndís Guðmundsdóttir. Fimm af tólf leikmönnum Keflavíkur í gær eru fæddar 1998 eða síðar.

Eins og áður sagði þá þekkja Keflavíkurkonur það vel að ná langt í þessari árlegu keppni en þær hafa spilað 81 prósent úrslitaleikja sögunnar.

Keflavíkurkonur spiluðu sex fyrstu úrslitaleikina í sögu Fyrirtækjabikars kvenna og hafa aðeins misst af þremur úrslitaleikjum eða úrslitaleikjunum árin 2006, 2009 og 2013.

Keflavíkurliðið vann Fyrirtækjabikarinn í sjöunda sinn fyrir ári síðan en Haukakonur hafa unnið hann næst oftast eða þrisvar sinnum.

Þessi tvö lið eru nú að mætast í fjórða sinn í úrslitaleik Fyrirtækjabikars kvenna. Haukar unnu 2005 og 2011 en Keflavíkurliðið vann leik liðanna 2007.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×