Körfubolti

Frazier frábær í öruggum sigri Grindavíkur

Ingvi Þór Sæmundsson skrifar
Petrúnella Skúladóttir var næststigahæst í liði Grindavíkur með 18 stig.
Petrúnella Skúladóttir var næststigahæst í liði Grindavíkur með 18 stig. vísir/þórdís
Whitney Frazier fór á kostum þegar Grindavík vann öruggan 21 stigs sigur, 89-68, á Val í 2. umferð Domino's deildar kvenna í körfubolta í dag.

Frazier skoraði 40 stig, tók 13 fráköst og stal boltanum níu sinnum í dag en hún var með hvorki fleiri né færri en 55 framlagsstig.

Grindavík, sem var að leika sinn fyrsta leik í deildinni eftir að hafa setið hjá í 1. umferðinni, byrjaði leikinn reyndar illa og Valskonur komust 12 stigum yfir, 2-14, um miðjan 1. leikhluta.

Smám saman komust heimakonur betur inn í leikinn og þær leiddu með þremur stigum eftir 1. leikhluta, 21-18, eftir níu stig í röð frá Frazier.

Grindavík hóf 2. leikhluta á 12-3 spretti og komst 12 stigum yfir, 33-21. Staðan í hálfleik var svo 43-34, Grindavíkingum í vil.

Heimakonur gáfu hvergi eftir í seinni hálfleik og unnu að lokum 21 stigs sigur, 89-68.

Frazier var sem áður sagði stigahæst í liði Grindavíkur með 40 stig en Petrúnella Skúladóttir kom næst með 18 stig þrátt fyrir að hafa hitt illa í leiknum (29%).

Hallveig Jónsdóttir var stigahæst í liði Vals með 18 stig en Karisma Chapman kom næst með 17 stig.

Tölfræði leiks:

Grindavík-Valur 89-68 (21-18, 22-16, 21-14, 25-20)

Grindavík: Whitney Michelle Frazier 40/13 fráköst/9 stolnir, Petrúnella Skúladóttir 18/4 fráköst/5 stoðsendingar, Lilja Ósk Sigmarsdóttir 10/15 fráköst, Hrund Skuladóttir 8, Jeanne Lois Figeroa Sicat 7/4 fráköst, Björg Guðrún Einarsdóttir 4/4 fráköst/5 stoðsendingar/5 stolnir, Helga Einarsdóttir 2/4 fráköst, Viktoría Líf Steinþórsdóttir 0, Angela Björg Steingrímsdóttir 0.

Valur:
Hallveig Jónsdóttir 18, Karisma Chapman 17/11 fráköst, Guðbjörg Sverrisdóttir 13/4 fráköst/5 stoðsendingar, Bergþóra Holton Tómasdóttir 6/6 fráköst, Dagbjört Samúelsdóttir 6/4 fráköst, Regína Ösp Guðmundsdóttir 6, Sóllilja Bjarnadóttir 2, Margrét Ósk Einarsdóttir 0, Dagbjört Dögg Karlsdóttir 0, Bylgja Sif Jónsdóttir 0, Jónína Þórdís Karlssdóttir 0.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×