Skoðun

Bréfið sem borgarráð skrifaði ekki - en hefði átt að skrifa

Ívar Halldórsson skrifar
Margir voru undrandi á bréfi borgarráðs til Raphael Schutz, sendiherra Ísraels í Noregi, sem birt var 27. október á visir.is

Rökhugsun er að mínu mati komin á einkennilegt stig þegar þjóð er beðin um að hætta öllu ofbeldi gegn heiftugum og öfgafullum árásarmönnum, sem eru nú með öllum tiltækum ráðum að reyna að útrýma þessari þjóð undir gunnfána heilags stríðs (global jihad).

Einnig er óhuggulega sláandi að palestínska stjórnin sé ekki fordæmd, af borgarráði eða öðrum "mannréttindasamtökum" hérlendis, fyrir að hvetja borgara sína til að drepa Gyðinga með hnífum, byssum og eitri.

Borgarráð er að mínu mati á hálum ís í afstöðu sinni, því að úr ærandi þögn þess gagnvart ofbeldisöldu Abbas, má greina að því er virðist hljótt samþykki á glæpsamlegu framferði Palestínumanna.

Hér er bréfið sem borgarráð lét óskrifað:



„Virðulegi forseti Mahmoud Abbas,

Þetta er áskorun til þín að stöðva ofbeldið í Ísrael, virða mannréttindi ísraelsku þjóðarinnar, viðurkenna tilvist Ísraelsríkis og hlíta ákvæðum lýðræðisþenkjandi hluta Sameinuðu þjóðanna og öðrum ráðum innan þess, sem styðja sönn mannréttindi. Þá er mikilvægt að undirstrika að palestínska stjórnin er skyldug til að heiðra Genfar sáttmálann sem endurspeglar grunnstoðir alþjóðalaga.

Sameinuðu þjóðirnar, sem samanstanda að meirihluta til af forsvarsmönnum þjóða sem ekki búa við lýðræði, hafa gert meiri kröfur til Ísraels en annara þjóða, t.d. Íran, Kína og Sýríu, og sakað hana um þjóðarmorð og tilefnislaust ofbeldi gegn íbúum Gaza og Vesturbakkans, á meðan aðrar þjóðir sem fremja óumdeilda mannréttindaglæpi fá varla, eða bara alls enga áminningu. Þetta er þó gert þrátt fyrir þá staðreynd að Ísraelar eru að nota sinn viðurkennda rétt til að verja sig gegn hryðjuverkastjórn þinni, sem hikar ekki við að fórna íbúum lands þíns með því t.d. að nota þá sem lifandi skildi - og svo notar þú, virðulegi Abbas, fjölmiðla til að koma sök á Ísrael fyrir mannfallið sem þú hefðir hæglega sjálfur getað komið í veg fyrir.

Svo þurfum við ekki að fara í grafgötur með að hugtakið "þjóðarmorð" endurspeglar réttilega, samkvæmt stjórnarskrá þinni, opinberan ásetning þinn gagnvart þjóð Gyðinga - en alls ekki ásetning Ísraels gagnvart Palestínu. Ef Ísraelsher hefði hug á að útrýma þjóð þinni, væri hann löngu búinn að því - og tæki það ekki langan tíma eins og þú veist. Ísraelar hafa margsinnis, og aftur nú nýlega, sýnt vilja til að ræða málin og til að reyna að finna sameiginlega lausn á málum ríkjanna tveggja. Þú hefur þó ekki sýnt gagnkvæman vilja - enda hefur þú talað opinberlega gegn tveggja ríkja lausn.

Palestínska stjórnin þarf að stöðva allt ofbeldi, þ.m.t. allar hryðjuverkaaðgerðir, sjálfsmorðsárásir, fjölmiðlakúgun, hryðjuverkakennslu í grunnskólum (sem er hreint og klárt brot á vestrænum barnaverndarlögum), mannréttindabrot gegn samkynhneigðum og kynþáttahatur í garð Gyðinga.

Ísraelar urðu því miður að reisa umdeildan vegg til að verja íbúa sína gegn árásum hryðjuverkamanna hryðjuverkastjórnar þinnar. Vonandi geta þjóðir ykkar þó byggt upp traust í framtíðinni, að veggurinn megi einhvern daginn niður falla. Við skiljum þó að það getur tekið einhvern tíma.

Það skal tekið fram að Ísland viðurkenndi á þingi tilvist Palestínu og sjálfstæði þann 29. nóvember 2011 og er þá gert ráð fyrir að landamærin miðist við vopnahléslínuna eins og hún fyrir sex daga stríðið 1967. En svo lengi sem ógn stafar af stjórn þinni og þú lýsir í hvívetna yfir að þú hyggist tortíma Ísrael er því miður ekki hægt að ætlast til að Ísrael gefi eftir þessi landamæri og stofni þannig saklausum ísraelskum fjölskyldum í bráða lífshættu.

Við viljum koma þeirri ósk okkar til skila að þetta langvarandi stríð taki enda og réttur ísraelska fólksins verði virtur. Það yrði sannarlega hið dýrmætasta framlag til heimsins og til heimsfriðar."

Undir hefðu upplýstir borgarráðsmenn átt að skrifa.




Skoðun

Skoðun

Þöggun

Guðbjörg Ása Jóns Huldudóttir,Margrét Kristín Blöndal,Margrét Rut Eddudóttir,Lukka Sigurðardóttir,Sigtryggur Ari Jóhannsson,Halldóra Jóhanna Hafsteins Âû skrifar

Sjá meira


×