Körfubolti

Dramatískur sigur Vals

Eiríkur Stefán Ásgeirsson skrifar
Chelsie Schweers var með þrefalda tvennu fyrir Stjörnuna en það dugði ekki til.
Chelsie Schweers var með þrefalda tvennu fyrir Stjörnuna en það dugði ekki til. Vísir/Vilhelm
Valur vann nauman sigur á Stjörnunni, 95-92, í framlengdum leik í Domino's-deild kvenna í kvöld. Leikurinn fór fram í Ásgarði í Garðabæ.

Eftir jafna viðureign þurfti að framlengja leikinn en liðin héldust að þar til að Hallveig Jónsdóttir setti niður þriggja stiga körfu þegar 38 sekúndur voru eftir af framlengingunni og kom Val yfir, 92-89.

Valur vann svo boltann aftur og komst þá á vítalínuna þar sem að Karisma Chapman nýtti bæði vítin sín. Chelsie Schweers náði þó að minnka muninn í tvö stig er hún setti niður þriggja stiga körfu þegar fjórtán sekúndur voru eftir.

Chapman fór þá aftur á vítalínuna en nýtti þó aðeins fyrra vítið. Margrét Kara Sturludóttir tók síðasta skot leiksins fyrir Stjörnuna en það geigaði. Niðurstaðan því þriggja stiga sigur Vals.

Stjarnan leiddi lengst af í kvöld en Valur náði að jafna metin og þvinga framlengingu. Staðan í hálfleik var 50-47, Stjörnunni í vil.

Karisma Chapman skoraði 32 stig fyrir Val og Guðbjörg Sverrisdóttir 27 en báðar tóku sextán fráköst í leiknum. Hallveig endaði með sautján stig.

Schweers var með þrefalda tvennu fyrir Stjörnuna en hún var með 27 stig, tíu fráköst og tíu stoðsendingar. Ragna Margrét Brynjarsdóttir kom næst með átján stig og fjórtán fráköst.

Stjarnan-Valur 92-95 (28-20, 22-27, 17-12, 14-22, 11-14)

Stjarnan: Chelsie Alexa Schweers 27/10 fráköst/10 stoðsendingar, Ragna Margrét Brynjarsdóttir 18/14 fráköst, Bryndís Hanna Hreinsdóttir 15/5 stoðsendingar, Hafrún Hálfdánardóttir 14/4 fráköst, Margrét Kara Sturludóttir 5/16 fráköst/6 stoðsendingar, Kristín Fjóla Reynisdóttir 5, Bára Fanney Hálfdanardóttir 3, Eva María Emilsdóttir 3/9 fráköst, Erla Dís Þórsdóttir 2.

Valur: Karisma Chapman 32/16 fráköst/6 stoðsendingar, Guðbjörg Sverrisdóttir 27/16 fráköst/6 stoðsendingar, Hallveig Jónsdóttir 17/5 fráköst/5 stoðsendingar, Sóllilja Bjarnadóttir 10, Margrét Ósk Einarsdóttir 9/6 stoðsendingar.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×