Körfubolti

Helena með hærra framlag en allir kanarnir í deildinni

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Helena Sverrisdóttir.
Helena Sverrisdóttir. Vísir/Vilhelm
Endurkoma Helenu Sverrisdóttur í íslensku deildina hefur verið glæsileg en hún hefur farið á kostum í þremur sigurleikjum Hauka í röð í Dominio´s deild kvenna.

Helena náði fyrstu þrennu vetrarins í Dominio´s deild kvenna í síðasta leik eftir að hafa skorað yfir 30 stig í fyrstu tveimur leikjunum.

Helena er með 45,3 framlagsstig að meðaltali í leik til þess á tímabilinu og er með hærra meðalframlag heldur en allir bandarísku atvinnumennirnir í Dominio´s deild kvenna.

Helena var með 35 stig, 15 fráköst, 7 stoðsendingar og 6 stolna bolta í sigri á Stjörnunni (54 framlagsstig), 32 stig, 19 fráköst og 5 stoðsendingar í sigri á Snæfelli (40 framlagsstig) og 17 stig, 17 fráköst og 13 stoðsendingar í sigri á Keflavík (42 framlagsstig).

Helena hefur skorað 28,0 stig í leik (6. sæti í deildinni), tekið 17,0 fráköst í leik (1. sæti), gefið 8,3 stoðsendingar í leik (1. sæti) og stolið 4,3 boltum í leik (3. sæti).

Grindvíkingurinn Whitney Michelle Frazier er með næsthæsta framlagið (41,7) og í 3. sæti er síðan Valskonan Karisma Chapman (38,3). Bakverðirnir Chelsie Alexa Schweers (Stjarnan), Haiden Denise Palmer (Snæfell) og Melissa Zorning (Keflavík) koma síðan í næstu sætum.

Næsti íslenski leikmaður á eftir Helenu er síðan yngri systir hennar Guðbjörg Sverrisdóttir er með 21,3 framlagsstig að meðaltali með Valsliðinu en Guðbjörg er aðeins á undan Stjörnukonunni Margréti Köru Sturludóttur. Það er hægt að sjá allan listann með því að smella á framlagshnappinn hér.

Tveir framlagshæstu leikmenn deildarinnar, Helena Sverrisdóttir og Whitney Michelle Frazier, mætast í kvöld þegar Haukaliðið tekur á móti Grindavík í Schenkerhöllinni á Ásvöllum. Leikurinn hefst klukkan 19.15 og verður í beinni textalýsingu á Vísi.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×