Körfubolti

Bryndís hafði betur gegn Margréti

Ingvi Þór Sæmundsson skrifar
Bryndís skoraði 11 stig fyrir Snæfell í dag.
Bryndís skoraði 11 stig fyrir Snæfell í dag. mynd/snæfell
Íslandsmeistarar Snæfells unnu öruggan sigur á Keflavík, 84-56, í Domino's deild kvenna í körfubolta í dag.

Fyrir leikinn beindist athyglin að Bryndísi Guðmundsdóttur og Margréti Sturlaugsdóttir en sú fyrrnefnda yfirgaf Keflavík vegna ósættis við Margréti sem er þjálfari Suðurnesjaliðsins.

Bryndís skoraði 11 stig en fimm leikmenn Snæfells voru með 10 stig eða meira. Haiden Palmer var þeirra stigahæst með 29 stig en hún tók einnig 13 fráköst, gaf sjö stoðsendingar og stal boltanum fimm sinnum.

Melissa Zorning var stigahæst í liði Keflavíkur með 21 stig og Thelma Dís Ágústsdóttir skilaði 17 stigum af bekknum.

Meistararnir hittu vel fyrir utan þriggja stiga línuna í kvöld en 11 af 25 skotum liðsins þaðan rötuðu rétta leið (44%). Heimakonur höfðu auk þess yfirburði í frákastabaráttunni sem þær unnu 55-43.

Snæfell leiddi með sjö stigum, 21-14, eftir 1. leikhluta en í hálfleik munaði níu stigum á liðunum, 40-31.

Munurinn var kominn upp í 11 stig, 58-47, fyrir 4. leikhlutann sem var eign Snæfells. Hólmarar hreinlega völtuðu yfir Keflvíkinga og unnu leikhlutann 26-9 og leikinn 84-56.

Með sigrinum komst Snæfell upp að hlið Grindavíkur og Vals með sex stig en Haukar sitja á toppi deildarinnar með átta stig.

Keflavík hefur hins vegar tapað fjórum af fyrstu fimm leikjum sínum og er aðeins með tvö stig í 6. og næstneðsta sæti deildarinnar.

Snæfell-Keflavík 84-56 (21-14, 19-17, 18-16, 26-9)

Snæfell: Haiden Denise Palmer 29/13 fráköst/7 stoðsendingar/5 stolnir, Gunnhildur Gunnarsdóttir 13/4 fráköst, Bryndís Guðmundsdóttir 11, Berglind Gunnarsdóttir 10/7 fráköst, Rebekka Rán Karlsdóttir 10, Anna Soffía Lárusdóttir 5, Andrea Björt Ólafsdóttir 4/4 fráköst, Hugrún Eva Valdimarsdóttir 2/4 fráköst, Kristín Birna Sigfúsdóttir 0, María Björnsdóttir 0, Sara Diljá Sigurðardóttir 0/5 fráköst, Hrafnhildur Magnúsdóttir 0.

Keflavík: Melissa Zorning 21, Thelma Dís Ágústsdóttir 17/4 fráköst, Elfa Falsdottir 5, Marín Laufey Davíðsdóttir 4/6 fráköst, Þóranna Kika Hodge-Carr 4/4 fráköst/5 stoðsendingar, Emelía Ósk Gunnarsdóttir 3, Sandra Lind Þrastardóttir 2/11 fráköst, Katla Rún Garðarsdóttir 0, Kristrún Björgvinsdóttir 0, Irena Sól Jónsdóttir 0, Bríet Sif Hinriksdóttir 0, Guðlaug Björt Júlíusdóttir 0.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×