Flutningsmenn frumvarpsins eru þeir Róbert Marshall, Guðmundur Steingrímsson, Óttarr Proppé og Páll Valur Björnsson, Bjartri framtíð, Helgi Hrafn Gunnarsson, Pírötum, Helgi Hjörvar og Össur Skarphéðinsson, Samfylkingu, og Steingrímur J. Sigfússon, Vinstri grænum.
Frumvarpið kemur í kjölfar ræðu Heiðu Kristínar Helgadóttur á Alþingi fyrir skömmu þar sem hún beindi fyrirspurn til Bjarna Benediktssonar, fjármálaráðherra, og spurði einfaldlega hvers vegna væri verið að skattleggja á henni legið.
Túrtappar og dömubindi bera hins vegar enn 24 prósenta skatt og spurði Heiða Bjarna hvernig á þessu stæði og hvort unnið væri að því að lækka þennan skatt.
Bjarni svaraði því ekki beint en sagði að frekari breytingar á virðisaukaskattskerfinu hefðu fyrst og fremst snúið að því að fækka undanþágum og einfalda kerfið. Þá sagði hann auðvelt að telja upp ýmislegt sem ætti að bera lægri skatt en hans skoðun væri sú að virðisaukakerfið ætti að vera sterkt. Þá ætti að reyna að draga áfram úr bilum milli þrepa, fækka undanþágum og fleira.
Heiða kvaðst skilja svar Bjarna á þann veg að ekki væri verið að vinna að því að lækka skatta á túrtöppum og dömubindum en nú er sem sagt komið fram frumvarp þess efnis. Spurningin er hvernig því reiðir af á þingi.