Körfubolti

Ráku stigahæsta leikmann deildarinnar

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Chelsie Alexa Schweers.
Chelsie Alexa Schweers. Vísir/Anton
Chelsie Alexa Schweers spilar ekki fleiri leiki með Stjörnunni í Domino´s deild kvenna í körfubolta á þessu tímabili því Stjarnan hefur ákveðið að segja upp samningi sínum við leikmanninn.

Baldur Ingi Jónasson, þjálfari nýliða Stjörnunnar, staðfesti það við Karfan.is að Schweers hefði verið sagt upp störfum.

„Það voru kannski tveir samspilandi þættir sem komu þarna einkum við sögu. Í fyrsta lagi er ákveðinn áhættuþáttur sem spilar inní varðandi höndina á henni, þ.e. hversu fljótt hún myndi ná fyrri styrk eftir að hafa brákað bein í handarbaki. Í öðru lagi, sem að vissu leyti er veigameiri þáttur, þá hefur að reynst ljóst að hún er miklu frekar skotbakvörður en leikstjórnandi. Hún var því að spila stöðu sem hentaði henni og liðinu ekki jafn vel og vera mætti," sagði Baldur Ingi við karfan.is.

Chelsie Alexa Schweers var með 31,0 stig að meðaltali í 9 leikjum sínum í fyrri umferð Domino´s deildar kvenna og var eini leikmaður deildarinnar með yfir 30 stig að meðaltali í leik. Hún skoraði flest stig á móti efstu liðunum og var með yfir 30 stig í leik á móti Haukum (32,5), Snæfelli (33,5), Grindavík (30,0) og Keflavík (36,0).

Schweers var einnig í 3. sæti í stoðsendingum (5,3), 4. sæti í þriggja stiga skotnýtingu (39 prósent), í 4. sæti í vítanýtingu (81 prósent) og í 4. sæti yfir hæsta framlagið í leik (29,1).

Chelsie Schweers missti af tveimur leikjum vegna handarbrots en spilaði síðasta leik Stjörnunnar fyrir jólafrí þar sem hún var með 13 stig og 5 stoðendingar í 80-76 sigri á Hamar. Schweers hitti aðeins úr 5 af 18 skotum sínum á móti Hvergerðingum.

Baldur Ingi sagði við karfan.is að leit stæði yfir að nýjum leikmanni sem væri væntanlega hreinræktaður leikstjórnandi ef marka má viðtalið við hann.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×