Sigríður Björk Guðjónsdóttir lögreglustjóri segir flesta þeirra hátt í tuttugu einstaklinga sem lögreglan á höfuðborgarsvæðinu hefur skilgreint sem mansalsþolendur á árinu hafa verið lokkaða hingað til lands.
Í sumum tilfellum hafi vegabréfin verið tekin af þeim og laun ekki greidd. Flest starfanna sem einstaklingarnir voru lokkaðir til voru verkamannastörf.
„Um er að ræða hátt í tuttugu einstaklinga sem lögreglan hefur skilgreint sem mansalsþolendur en mál þeirra, fyrir utan tvo, hefur ekki verið hægt að taka til rannsóknar vegna mismunandi ástæðna; sumir þolendur vildu fara af landi brott sem fyrst m.a með aðstoð sendiráðs eða óttuðust að greina frá aðstöðu sinni.
Þessir einstaklingar bjuggu flestir við það að hafa verið lokkaðir hingað til lands og í sumum tilfellum voru vegabréf tekin af þeim og laun ekki greidd. Í flestum tilfellum er um að ræða einstaklinga sem starfa eða störfuðu við verkamannastörf hér á landi.“
Sigríður segir frá því að til þess að ná betur utan um málaflokkinn verði myndað mansalsteymi innan lögreglunnar. Þar sem fjármagn fylgdi ekki aðgerðaáætlun ríkisstjórnar gegn mansali þá muni rannsóknir á mansali draga mannafla frá öðrum málaflokkum nema að brugðist verði við með viðbótarfjármögnun.
„Í byrjun nýs árs verður innleitt nýtt skipulag í rannsóknardeild embættisins. Að ná betur utan um þennan málaflokk er eitt af þeim markmiðum sem lögreglan á höfuðborgarsvæðinu hyggst ná með þeim breytingum. Sérstakur lögreglufulltrúi verður ráðinn í byrjun árs, til eins árs, til að halda utan um málaflokkinn. Þeir rannsóknarlögreglumenn sem koma að mansalsrannsóknum hverju sinni mynda teymið með lögreglufulltrúanum. Fjöldi þeirra fer eftir verkefnum hverju sinni en æskilegt er að 2-3 rannsóknarlögreglumenn sinni þessum málaflokki að jafnaði. Eins og staðan er í dag mun aukin áhersla á þennan málaflokk draga mannafla frá öðrum málaflokkum ef ekki verður brugðist við með viðbótarfjárveitingu.“
Innlent