Menning

Orgelleikur við kertaljós í 25. sinn

Gunnþóra Gunnarsdóttir skrifar
Friðrik Vignir Stefánsson organisti er einn af þeim sem upplifa það að orgelstund við kertaljós sé ómissandi þáttur í upphafi jólahátíðar.
Friðrik Vignir Stefánsson organisti er einn af þeim sem upplifa það að orgelstund við kertaljós sé ómissandi þáttur í upphafi jólahátíðar.
Friðrik Vignir Stefánsson, organisti í Seltjarnarneskirkju, stendur fyrir orgelstund við kertaljós í Seltjarnarneskirkju í kvöld milli klukkan 22 og 23.



„Ég tók upp þennan sið fyrir 25 árum þegar ég byrjaði sem organisti á Grundarfirði 1988. Fyrsta árið komu innan við tíu manns en undir lok veru minnar fyrir vestan mættu milli 70 og 80, “ segir Friðrik Vignir Stefánsson um orgelstundina á Þorláksmessukvöld sem orðin er að hefð í lífi hans.

Hann hefur verið organisti í Seltjarnarneskirkju frá 2007 og þar verður hann í kvöld ásamt messósópransöngkonunni Eygló Rúnarsdóttur og ætlar að flytja jólasálma og jólalög. Allir eru velkomnir og aðgangur er ókeypis.

„Ég er alltaf með jólatónlist eftir Bach, svo læði ég inn einu og einu nýju lagi og einnig spila ég jólasálma sem ekki heyrast oft í messum nú til dags, eins og Jesús þú ert vort jólaljós. Eygló hefur verið með mér síðustu fimm sex ár. Við flytjum alltaf Nóttin var sú ágæt ein og Ave Maríu Sigvalda Kaldalóns sem er í miklu uppáhaldi.“



Friðrik Vignir segir búðum í Grundarfirði hafa verið lokað klukkan 23, þá hafi hann byrjað að spila í kirkjunni og haldið áfram til miðnættis.

„Ég heyri við og við að mín sé enn saknað fyrir vestan, sérstaklega á Þorláksmessu,“ segir hann glaðlega. 

„Seltirningar tóku líka þessu uppátæki mínu vel og fólki er frjálst að koma og fara eftir vild, sumir stoppa allan tímann en aðrir skemur. Mörgum finnst tilvalið að koma við á leið úr verslunar­leiðangri og slaka á við ljúfa tónlist. Sumir hafa talað um að stundin sé ómissandi þáttur í byrjun jólahátíðarinnar og ég er einn af þeim sem upplifa það.“






Fleiri fréttir

Sjá meira


×