Skoðun

Viltu að þín rödd heyrist?

Árni Stefán Jónsson skrifar
Síðustu daga hafa um 50.000 starfsmenn fengið senda könnun um val á Stofnun og Fyrirtæki ársins ásamt launakönnun. Það eru stéttarfélögin SFR stéttarfélag í almannaþjónustu, VR og Starfsmannafélag Reykjavíkurborgar sem standa á bak við þessa stærstu mannauðskönnun landsins ásamt fjármálaráðuneytinu. Í henni eru starfsmenn meðal annars spurðir um launakjör, líðan, sveigjanleika vinnutíma, trúverðugleika stjórnenda og sjálfstæði í starfi, svo eitthvað sé nefnt.

Líðan starfsmanna og mannauðsmál almennt er nokkuð sem stjórnendur hafa sem betur fer verið að gefa meiri gaum nú en áður. Í könnuninni um Stofnun og Fyrirtæki ársins fær rödd starfsmanna vægi og stjórnendur geta nýtt niðurstöðurnar til þess að bæta það sem bæta þarf. Það hefur sýnt sig margoft að stjórnendur þeirra stofnana og fyrirtækja sem vinna áfram með niðurstöður könnunarinnar innan vinnustaðarins færast hratt og örugglega upp listann. Slíkir vinnustaðir verða að lokum Fyrirmyndarstofnanir og Fyrirmyndarfyrirtæki og hljóta fyrir það sérstaka viðurkenningu við hátíðlega athöfn í maí ár hvert. Þar er einnig valinn hástökkvari ársins, en þann skemmtilega titil hlýtur sá sem hoppað hefur upp um flest sæti á milli ára.

SFR stéttarfélag í almannaþjónustu hefur nú látið framkvæma könnunina um Stofnun ársins í níu ár og niðurstöður hennar gefa félaginu verðmætar upplýsingar um þróun mála, bæði hvað varðar launakjör og aðstæður á vinnustöðum. Auk þess sem þær gefa mikilvægan samanburð á milli félaga og hins opinbera og almenna vinnumarkaðar sem nýtast félaginu vel í kjarabaráttu og hagsmunagæslu fyrir félagsmenn. Gildi könnunarinnar felst ekki síst í stærð hennar, en hún nær m.a. til um 10.000 opinberra starfsmanna og allra ríkisstofnana, auk fyrirtækja á almennum markaði.

Könnunin er ekki síður mikilvæg fyrir hinn almenna félagsmann sem getur með henni mátað sig við aðra í sambærilegum störfum og notað niðurstöðurnar til hagsbóta fyrir sjálfan sig og sitt starf. Sérstaða hennar liggur í því að starfsmenn sjálfir hafa orðið. Það er þeirra rödd sem gefur niðurstöðurnar og því er rödd hvers og eins afar mikilvæg.

Ég vil því hvetja alla félagsmenn og aðra sem fá könnunina senda til þess að svara henni, því þannig getum við bætt hag okkar allra.




Skoðun

Skoðun

Þöggun

Guðbjörg Ása Jóns Huldudóttir,Margrét Kristín Blöndal,Margrét Rut Eddudóttir,Lukka Sigurðardóttir,Sigtryggur Ari Jóhannsson,Halldóra Jóhanna Hafsteins Âû skrifar

Sjá meira


×