Innlent

Haftalosun ógn við stöðugleika

stefán rafn sigurbjörnsson skrifar
Losun fjármagnshafta gæti reynst ógn við stöðugleika.
Losun fjármagnshafta gæti reynst ógn við stöðugleika. Fréttablaðið/GVA
Helsta ógnin við stöðugleika fjármálakerfisins eru þættir sem tengjast losun gjaldeyrishafta. Þetta kom fram á fundi fjármálastöðugleikaráðs í fyrradag.

Stöðugleikahorfur í fjármálakerfinu eru óbreyttar frá síðasta fundi ráðsins en ytra umhverfi fjármálakerfisins er hagstætt, ytri jöfnuður er góður, staða viðskiptabankanna er ágæt og fjármögnunarþörf þeirra í erlendum gjaldmiðlum á næstu árum hófleg.

Kerfisáhættunefnd, sem starfar fyrir fjármálastöðugleikaráð, telur fjóra eftirlitsskylda aðila mikilvæga á Íslandi. Það eru Arion banki, Landsbankinn, Íslandsbanki og Íbúðalánasjóður. Þessir aðilar geta, vegna stærðar sinnar og mikilla umsvifa, haft umtalsverð neikvæð áhrif á fjármálastöðugleika á landinu og eftirlit með þeim því brýnt. Greining kerfisáhættunefndar er byggð á leiðbeinandi tilmælum evrópska bankaeftirlitsins um þá þætti sem lúta að kerfislega mikilvægum aðilum. Fjármálastöðugleikaráð hefur staðfest mikilvægi þess að áðurnefndir aðilar lúti eftirliti í samræmi við tilmæli bankaeftirlitsins.

Fjármálastöðugleikaráð er formlegur samstarfsvettvangur stjórnvalda um fjármálastöðugleika og samhæfir viðbúnað við hugsanlegri fjármálakreppu.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×