Handbolti

Aron og HSÍ ræða loksins saman um framhaldið í næstu viku

Henry Birgir Gunnarsson skrifar
Óljóst er hvort Aron heldur áfram að þjálfa landsliðið.
Óljóst er hvort Aron heldur áfram að þjálfa landsliðið. Vísir/Vilhelm
„Ég kem heim í byrjun næstu viku og þá er stefnan að setjast niður,“ segir Aron Kristjánsson landsliðsþjálfari.

Samningur hans við HSÍ rennur út í næsta mánuði og enn sem komið er hefur ekkert verið rætt um framhaldið. Forkólfar HSÍ vildu sjá hvernig vegnaði í undankeppni EM áður en lengra væri haldið. Eftir þrjú stig í tveimur leikjum gegn Serbum er ljóst að Ísland er í dauðafæri að komast á EM í Póllandi næsta janúar.

„Við ætlum aðeins að fara yfir stöðuna varðandi mín mál með landsliðið og önnur verkefni sem ég er með í gangi,“ segir þjálfarinn en hefur hann áhuga á að halda áfram með liðið?

„Það verður að vera gagnkvæmur vilji hjá báðum aðilum til þess að samningar náist og það er vilji af minni hendi til þess að semja eins og staðan er núna. Maður veit samt aldrei hvernig fer fyrr en maður sest niður með hinum aðilanum.“

Framtíðin er því í óvissu hjá Aroni en fari svo að hann verði ekki landsliðsþjálfari áfram, hvað tekur þá við? „Ég er með aðra möguleika í boði. Bæði úti og hér heima. Stefnan var alltaf að koma heim í sumar,“ segir Aron.


Tengdar fréttir

Ég missti aldrei trúna

Ísland var þremur mörkum undir þegar tvær mínútur voru til leiksloka í mikilvægum leik gegn Serbíu í undankeppni EM 2016. Ísland skoraði þrjú síðustu mörk leiksins og fékk tækifæri til að skora úr lokasókn leiksins en tókst ekki.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×