Skoðun

Um verkföll á Rannsóknarsviði Landspítalans

Yfirlæknar skrifar
 

Niðurstöður klínískra rannsókna eru grundvöllur nánast allra mikilvægra ákvarðana um greiningu og meðferð sjúklinga. Því er öflugur rekstur, góð fagþekking og gæðaeftirlit rannsóknadeilda forsenda góðrar heilbrigðisþjónustu.

Geislafræðingar, lífeindafræðingar og náttúrufræðingar gegna afar veigamiklu hlutverki á Rannsóknarsviði Landspítalans, en verkfall þeirra hefur nú staðið í 5 vikur. Á þessum tíma hafa allir starfsmenn sviðsins lagt sig fram við að halda uppi bráðastarfsemi þannig að bráðveikir sjúklingar verði ekki fyrir tjóni. Þeirri starfsemi sem ekki tengist bráðveikum sjúklingum hefur hins vegar ekki verið hægt að sinna.



Þúsundir lífsýna úr sjúklingum hafa verið fryst eða formeðhöndluð á annan hátt og bíða þess að vera rannsökuð og greind. Þá eru hundruð sjúklinga sem bíða þess að komast í röntgenrannsóknir. Af þessum sökum hefur greining og meðferð sjúkdóma dregist úr hófi með ófyrirséðum afleiðingum og er eingöngu tímaspursmál hvenær alvarleg tilvik koma upp. Auk þess kemur verkfallið niður á öðrum mikilvægum þáttum eins og til dæmis gæðastjórnun, kennslu og vísindarannsóknum.

Við undirritaðir yfirlæknar á Rannsóknarsviði Landspítalans hvetjum fulltrúa ríkisvaldsins og BHM að hefja strax af krafti kjaraviðræður og leita allra leiða til að ljúka gerð kjarasamninga og binda enda á þá grafalvarlegu stöðu sem komin er í heilbrigðismálum þjóðarinnar.

 

Arthur Löve, yfirlæknir Veirufræðideildar

Björn Rúnar Lúðvíksson, yfirlæknir Ónæmisfræðideildar

Ísleifur Ólafsson, yfirlæknir Klínískrar lífefnafæðideildar

Jón Gunnlaugur Jónasson, yfirlæknir Meinafræðideilar

Jón Jóhannes Jónsson, yfirlæknir Erfða- og sameindalæknisfræðideildar

Karl G. Kristinsson, yfirlæknir Sýklafræðideildar

Óskar Reykdalsson, framkvæmdastjóri Rannsóknarsviðs

Páll Torfi Önundarson, yfirlæknir Blóðmeinafræðideildar

Pétur Hannesson, yfirlæknir Röntgendeildar




Skoðun

Skoðun

Þöggun

Guðbjörg Ása Jóns Huldudóttir,Margrét Kristín Blöndal,Margrét Rut Eddudóttir,Lukka Sigurðardóttir,Sigtryggur Ari Jóhannsson,Halldóra Jóhanna Hafsteins Âû skrifar

Sjá meira


×