Skoðun

Lögbundna sálfræðiþjónustu í grunn- og framhaldsskóla

Óskar Steinn Ómarsson skrifar
Algengasta dánarorsök ungra íslenskra karlmanna á aldrinum 18 til 25 ára er sjálfsvíg. Ekki bílslys, ekki krabbamein, heldur sjálfsvíg.

Fjórir til sex ungir karlmenn svipta sig lífi ár hvert, en alls falla að meðaltali 35 Íslendingar fyrir eigin hendi árlega. Símtölum um sjálfsvíg í hjálparsíma Rauða krossins, 1717, hefur fjölgað um 42% milli ára. Ef um annars konar dauðsföll væri að ræða, svo sem af völdum kynsjúkdóms, væri talað um faraldur.

Viðvörunarbjöllurnar eru líka byrjaðar að hringja í framhaldsskólum landsins. Á meðan brottfall fer almennt minnkandi hækkar hlutfall þeirra sem hætta í námi vegna andlegra veikinda. Á haustönn 2014 hættu 12 prósent vegna andlegrar vanlíðunar – upp um þrjú prósentustig frá því árið áður. Náms- og starfsráðgjafar upplifa aukið álag og segja að starf þeirra snúist í auknum mæli um að veita nemendum með erfið persónuleg vandamál þjónustu, sem betur ætti heima á sviði velferðarþjónustu.

Við verðum að grípa til aðgerða strax. Í lögum um grunn- og framhaldsskóla er hvergi að finna nein ákvæði um aðgengi nemenda að sálfræðiþjónustu. Í dag er því eina raunverulega úrræðið að leita til dýrra sálfræðinga utan veggja skólans. Vegna mikils kostnaðar bíta margir á jaxlinn og veigra sér við því að leita aðstoðar. Rétturinn til gjaldfrjálsrar sálfræðiþjónustu í grunn- og framhaldsskólum landsins á að vera sjálfsagður og óskoraður. Um er að ræða nauðsynlega heilbrigðisþjónustu sem getur skipt sköpum fyrir ungt fólk sem á í erfiðleikum með að fóta sig í lífinu.

Lögbundin sálfræðiþjónusta í grunn- og framhaldsskólum getur bætt andlega heilsu ungmenna, dregið úr brottfalli og bjargað mannslífum.




Skoðun

Skoðun

Þöggun

Guðbjörg Ása Jóns Huldudóttir,Margrét Kristín Blöndal,Margrét Rut Eddudóttir,Lukka Sigurðardóttir,Sigtryggur Ari Jóhannsson,Halldóra Jóhanna Hafsteins Âû skrifar

Sjá meira


×