Erlent

Repúblikanar leiða gegn Clinton í þremur lykilfylkjum

Þórgnýr Einar Albertsson skrifar
Hillary Clinton, líklegasti forsetaframbjóðandi demókrata, mælist með minna fylgi en repúblikanar í þremur lykilfylkjum.
Hillary Clinton, líklegasti forsetaframbjóðandi demókrata, mælist með minna fylgi en repúblikanar í þremur lykilfylkjum. nordicphotos/afp
Hillary Clinton, fyrrverandi utanríkisráðherra, og Bernie Sanders, öldungadeildarþingmaður, sem sækjast eftir útnefningu flokks demókrata til forsetaframboðs í Bandaríkjunum, mælast með minna fylgi en andstæðingar þeirra í þremur lykilfylkjum í nýrri könnun Quinnipiac-háskólans, sem kannar reglulega stöðuna í stjórnmálum vestanhafs.

Þeir frambjóðendur repúblíkana sem háskólanum þykir líklegastir til sigurs, Jeb Bush, fyrrverandi ríkisstjóri Flórída, Scott Walker, ríkisstjóri Wisconsin, og öldungadeildarþingmaðurinn Marco Rubio, mælast með meira fylgi en Clinton og Sanders í Virginíu, Colorado og Iowa.

Í Bandaríkjunum er kosið í fylkjunum fimmtíu hverju í sínu lagi. Kjósendur kjósa sinn fulltrúa og eru í hverju fylki sérstakir kjörmenn, mismargir eftir fylkjum, sem kjósa svo allir einn frambjóðanda eftir því hvor fékk fleiri atkvæði í fylkinu. Í ákveðnum fylkjum er nær alltaf kosinn sami flokkurinn þannig að harðast er barist um þau þar sem litlu munar, til dæmis í Virginíu, Colorado og Iowa.

270 kjörmenn þarf til að vinna en alls eru þeir 538. Níu eru í Colorado, sex í Iowa og þrettán í Virginíu. Barack Obama, sitjandi forseti, vann í öllum fylkjunum þremur í síðustu kosningum.


Tengdar fréttir




Fleiri fréttir

Sjá meira


×