Körfubolti

Sverrir Þór tekur við Keflavík út tímabilið

Anton Ingi Leifsson skrifar
Sverrir er nýjasti þjálfari Keflavíkur.
Sverrir er nýjasti þjálfari Keflavíkur. vísir/stefán
Sverrir Þór Sverrison er nýr þjálfari Keflavíkur í Dominos-deild kvenna, en þetta staðfesti hann við Vísi í kvöld. Stuttu síðar var svo send út fréttatilkynning þar sem Sverrir var kynntur sem nýr þjálfari liðsins út leiktíðina.

Margrét Sturlaugsdóttir var sagt upp störfum í gærkvöldi og stýrði Marín Rós Karlsdóttir því liði Keflavíkur til sigurs gegn Skallagrím í átta liða úrslitum bikarsins með Sigurð Ingimundarson sér til aðstoðar.

Sverrir spilaði lengst af með Keflavík eða alls átta tímabil, en að þeim undanskildum lék hann eitt tímabil með Snæfell, þrjú með Tindastól og eitt með Njarðvík.

Hann hefur svo bæði þjálfað karla- og kvennalið Grindavíkur auk þess sem hann þjálfaði A-landslið kvenna í tvö ár og kvennalið Njarðvíkur. Samningur Sverris við Keflavík gildir út tímabilið, en Sverrir hafði verið í fríi frá því síðasta vor þegar hann hætti með Grindavík.

Þessi 41 árs gamli þjálfari sagði í samtali við Vísi fyrr í kvöld vera spenntur fyrir þessari áskorun, en segir leitt hvernig málin höfðu endað hjá Margréti. Hann segir að þetta sé spennandi verkefni og að hann taki við góðu búi af Margréti.

Hann neitaði Tindastól fyrr í vetur, en segist nú endurnærður og klár í bátana eftir átta mánaða frí. Hann segist spenntur og sig sé farið að klæja í puttana að komast aftur á völlinn enda verið á körfuboltavellinum nánast allt sitt líf.

Keflavík er komið í undanúrslit bikarkeppninnar og er í þriðja sæti Dominos-deildarinnar með tólf stig.


Tengdar fréttir




Fleiri fréttir

Sjá meira


×