Handbolti

Dagur varar við Íslandi

Eiríkur Stefán Ásgeirsson skrifar
Dagur Sigurðsson.
Dagur Sigurðsson. Vísir/Getty
Dagur Sigurðsson, þjálfari þýska landsliðsins, segir að það sé heilmikið sem ber að varast fyrir leiki hans manna gegn íslenska liðinu um helgina.

Þýskaland vann Túnis í æfingaleik í Stuttgart í fyrradag, 37-30, eftir að hafa lent undir snemma leiks. Dagur var ánægður með spilamennsku sinna manna, sérstaklega í sókn, en vill að vörnin verði betri í leikjunum gegn Íslandi.

Sjá einnig: Sigurganga Dags og þýska landsliðsins heldur áfram

„Við munum nú undirbúa okkur fyrir andstæðing sem er jafnvel taktískt enn sterkari en við,“ sagði Dagur við þýska fjölmiðla eftir leikinn í gær. „Ísland er með mikla rútínu og gríðarlega reynslumikinn leikmannahóp.“

Ísland mætti Portúgal í æfingaleik í Kaplakrika í gær og mátti þola fjögurra marka tap, 32-28. Liðin mætast aftur í kvöld en þá má reikna með því að leikmenn sem fengu ekki tækifæri í gær verði í aðalhlutverki.

Sjá einnig: Guðjón Valur: Gefumst ekki upp eftir þrjá daga

„Til þess að vinna þetta lið þarf maður að hafa betur í leikskipulaginu. Maður veit að Íslendingar geta brugðist við öllum aðstæðum á vellinum mjög fljótt og munu enn fremur skapa vandamál fyrir okkur sem við verðum að leysa.“

Það hafa verið mikil meiðsli í leikmannahópi þýska liðsins í aðdraganda EM sem hefst í Póllandi í næstu viku. En Dagur var ánægður með hvernig hans menn leystu sín hlutverk auk þess sem að hann vonast til að vinstri hornamaðurinn Rune Dahmke geti spilað með liðinu í æfingaleikjunum gegn Íslandi um helgina.

Samherji Dahmke hjá Kiel, skyttan Christian Dissinger, átti stórleik í leiknum á þriðjudag og skoraði átta mörk.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×