Körfubolti

Umfjöllun og viðtöl: Valur - Snæfell 69-72 | Snæfellskonur fylgja Haukum eftir

Kristinn Páll Teitsson skrifar
Bryndís Guðmundsdóttir.
Bryndís Guðmundsdóttir. vísir/vilhelm
Snæfell vann nauman 71-67 sigur á Val í Dominos-deild kvenna í kvöld en Snæfell sem leiddi frá fyrstu mínútum leiksins átti í erfiðleikum með að hrista sprækar Valskonur frá sér.

Snæfellsliðið var skrefinu á undan allan tímann í þessum kaflaskipta leik en Valskonur neituðu að gefast upp og hleyptu Snæfellsliðiðinu aldrei of langt frá sér.

Síðast þegar þessi lið mættust var Valsliðið einfaldlega fallbyssufóður fyrir lið Snæfells en leiknum lauk með 82-38 sigri Snæfells á heimavelli.

Snæfell setti fyrstu tvær körfur leiksins í kvöld og komst í 5-0 en þá virtust Valskonur vakna til lífsins og fóru að spila betri sóknarleik. Náðu þær að halda í við Snæfell allan fyrsta leikhluta og ná forskotinu um tíma en Snæfell leiddi að fyrsta leikhluta loknum, 22-21.

Snæfell byrjaði annan leikhluta af krafti og náði þegar mest var níu stiga forskoti um miðbik annars leikhluta en þá tóku Valskonur aftur við sér og fóru að saxa á forskot Snæfells.

Fór Karisma Chapman fyrir liði Vals í fyrri hálfleik en hún minnkaði muninn aftur niður í eitt stig, 38-39, með flautukörfu undir lok fyrri hálfleiks.

Tókst Valsliðinu að jafna stigaskor sitt úr fyrri leik liðanna strax í fyrri hálfleik í kvöld en Karisma bar liðið á herðum sér með 21 stig og 10 fráköst í fyrri hálfleik.

Þriðji leikhluti var keimlíkur öðrum leikhluta. Aftur byrjaði Snæfell mun betur en Valskonur voru aldrei langt undan og náðu að minnka muninn í fjögur stig skömmu fyrir lok leikhlutans, 51-55.

Orkubirgðir Valsliðsins virtust einfaldlega á þrotum í upphafi fjórða leikhluta en aðeins þrír leikmenn liðsins höfðu skorað í leiknum fram að því.

Náði Snæfell tíu stiga forskoti skömmu fyrir lok leiksins en með góðum kafla á lokasekúndum leiksins tókst Valskonum að minnka muninn aftur niður í fjögur stig þegar lokaflautið hljómaði.

Karisma var atkvæðamest í liði Vals í kvöld en hún lauk leik með 31 stig ásamt því að taka 18 fráköst. Þá bætti Guðbjörg Sverrisdóttir við 22 stigum en aðeins fjórir leikmenn Vals komust á blað í kvöld.

Í liði Snæfells náði Haiden sér á strik í seinni hálfleik eftir að hafa aðeins verið með fjögur stig í hálfleik en hún var með átján stig í öllum leiknum ásamt því að taka 13 fráköst. Þá bætti Gunnhildur Gunnarsdóttir við 16 stigum og Bryndís Guðmundsdóttir öðrum tólf stigum.

Valur-Snæfell 69-72 (21-22, 17-17, 13-16, 18-17)

Valur: Karisma Chapman 33/19 fráköst/3 varin skot, Guðbjörg Sverrisdóttir 26/6 fráköst, Hallveig Jónsdóttir 8, Dagbjört Samúelsdóttir 2/4 fráköst.

Snæfell: Haiden Denise Palmer 18/13 fráköst, Berglind Gunnarsdóttir 16, Bryndís Guðmundsdóttir 12, Gunnhildur Gunnarsdóttir 9/8 fráköst, Alda Leif Jónsdóttir 7, Rebekka Rán Karlsdóttir 5, María Björnsdóttir 4/4 fráköst, Hugrún Eva Valdimarsdóttir 1/5 fráköst. 

Ingi Þór: Hélt að við værum undir í seinni hálfleik miðað við skotvalið„Ég er ánægður með að við náðum að vinna þennan leik þó að það hafi sést langar leiðir að þetta væri fyrsti leikur eftir jól,“ sagði Ingi Þór Steinþórsson, þjálfari Snæfells, sáttur að leikslokum, aðspurður hvort það hefði verið léttir að heyra lokaflautið í kvöld.

„Mér fannst leikmennirnir mínir ekki nægilega öflugir í kvöld, það er spurning hvort það hafi einhverjar sykurhúðaðar kartöflur setið í þeim.“

Ingi sagðist ekki hafa búist við annarri eins slátrun og þegar liðin mættust fyrr í vetur.

„Við vissum að það er meira varið í þetta Valslið en þær sýndu í leiknum gegn okkur í Stykkishólmi. Við áttum frábæran leik þann dag en alls ekki jafn góðan í kvöld,“ sagði Ingi.

Ingi var ósáttur með ákvörðunartöku leikmanna sinna í leiknum.

„Ég hélt um tíma að við værum undir í seinni hálfleik því skotvalið hjá leikmönnunum mínum var mjög undarlegt. Við vorum of kærulaus á báðum endum vallarins og þær náðu alltaf að minnka muninn í stað þess að við næðum einhverju forskoti.“  

„Vörnin var ekkert sérstök í dag, stelpurnar voru skrefinu og seinar í vörn að mínu mati. Það var jákvætt að við náðum að halda Karisma í tveimur stigum í þriðja leikhluta eftir að hún setti 21 stig,“ sagði Ingi sem vildi gera út um leikinn í þriðja leikhluta.

„Við fengum tækifæri til þess að ná afgerandi forystu í þriðja leikhluta, þær fá framlag frá tveimur manneskjum í seinni hálfleik og það á ekki að duga til. Við þurfum að spila mun betur gegn þeim á laugardaginn ef við ætlum að vinna þær hérna í bikarnum,“ sagði Ingi að lokum.

Ari: Auglýsi eftir öðrum leikmönnum liðsins„Við spiluðum nokkuð vel í kvöld þótt það hafi komið upp mistök inn á milli,“ sagði Ari Gunnarsson, þjálfari Vals, brattur að leikslokum.

Snæfell var skrefinu á undan allan leikinn en gekk illa að hrista Valsliðið frá sér.

„Þær komumst yfir og við náðum aldrei að brúa það bil. Við vorum að elta þær allan leikinn og það sást kannski aðeins á spilamennskunni hérna undir lokin. Það er erfitt að vera alltaf að eltast við þær og það hefði verið gott fyrir sálræna þáttinn að komast yfir en svo fór sem fór.“

Aðeins fjórir leikmenn Vals komust á blað í kvöld en þrír þeirra sáu um stigaskorunina fyrir Val. Ari var ósáttur með spilamennskuna hjá öðrum leikmönnum liðsins.

„Ég auglýsi eftir öðrum leikmönnum liðsins. Aðeins þrír skoruðu í kvöld, fjórir ef ég tel með vítaskotin þegar leikurinn var búinn. Ég auglýsi eftir því að leikmennirnir mínir stígi upp og geri eitthvað,“ sagði Ari ósáttur og bætti við:

„Það er hægt að vinna leiki þótt aðeins þrír skori en það er betra að aðrir leikmenn spili þannig að þær geti aðeins kælt sig niður.“

Ari sá jákvæða punkta í tapinu en síðast þegar þessi lið mættust var Valskonum einfaldlega slátrað með 44 stiga mun.

„Við reyndum að hugsa ekkert út í þann leik, við einbeittum okkur bara að leik kvöldsins. Ég var ánægður með ýmislegt í kvöld en seinni hálfleikurinn var erfiður fyrir okkur. Þær pressuðu okkur hart og okkur tókst ekki að svara því.“

Bryndís: Vorum að flýta okkur of mikið„Við þurftum að hafa virkilega mikið fyrir þessu. Valsliðið er mjög gott lið og það er ekki hægt að mæta hingað í Vodafone-höllina með hálfum hug,“ sagði Bryndís Guðmundsdóttir kát að leikslokum.

Bryndís tók undir orð þjálfara síns þegar hún ræddi ákvarðanir liðsins í kvöld.

„Mér leið eins og við værum undir í seinni hálfleik því við vorum að flýta okkur allt of mikið. Fyrir vikið náðum við ekki almennilegum sóknum og náðum aldrei að bæta við forskotið. Við vorum að taka skotin allt of snemma.“

Aðeins fjórir leikmenn Vals komust á blað í kvöld en Karisma og Guðbjörg sáu um 59 af 67 stigum liðsins í kvöld.

„Í fyrri hálfleik vorum við ekki að spila nægilega góða vörn gegn bandaríska leikmanninum þeirra og við vorum ákveðnar að stoppa hana í seinni hálfleik. Við þurfum að koma mun ákveðnari í vörn í bikarleikinn á sunnudaginn.“

Bryndís sagði að það væri gott að vera komin af stað á ný eftir jólafríið.

„Ég held að það hafi verið smá jólabragur á leiknum. Leikmennirnir urðu þreyttir og spilamennskan var ekkert frábær á löngum köflum,“ sagði Bryndís létt að lokum.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×