Körfubolti

Helena: Þurfti að fatta hvernig ég ætti að spila

Henry Birgir Gunnarsson skrifar
Helena með verðlaunin sem hún fékk í dag.
Helena með verðlaunin sem hún fékk í dag. vísir/vilhelm
„Ég er ekki vön því að taka þátt í svona verðlaunum eftir hálft tímabil en það er alltaf gaman að fá verðlaun,“ sagði brosmild Helena Sverrisdóttir Haukakona en hún var valin besti leikmaður í fyrri hluta Dominos-deild kvenna.

„Ég vissi að það yrði erfitt að aðlaga mig að boltanum hérna og fatta hvernig ég ætti að spila. Hvenær ég ætti að taka af skarið og hvenær ég ætti að vera liðsfélagi. Ég hef þurft að læra mikið og það hefur tekið tíma. Ég er samt alls ekki ósátt því mér finnst ég hafa spilað vel,“ segir Helena en hefur hún fundið jafnvægið sem hún hefur verið að leita eftir í sínum leik?

„Mér finnst það vera að koma og finnst það vera að koma. Mig langar að hjálpa öðrum að ná árangri. Í fyrstu leikjunum var ég að skora mikið og kannski taka frá öðrum en ég vildi frekar hjálpa hinum meira. Þegar öllu er á botninn hvolft vill maður samt bara vinna og það skiptir mestu máli.“

Helena hafði verið í atvinnumennsku síðustu árin en finnst henni vera munur á deildinni núna og áður en hún fór út?

„Ég fór mjög ung út og mér fannst deildin hér heima mjög sterk þá. Mér finnst hún ekkert veikari núna og það er mikið af efnilegum stelpum. Hraðir leikmenn og boltinn svolítið óagaður. Þetta er að mörgu leyti frjalslegur körfubolti en skemmtilegur.“


Tengdar fréttir




Fleiri fréttir

Sjá meira


×