Sport

Landsliðin fengu skell gegn Dönum á Novotel Cup

Kristinn Páll Teitsson skrifar
Íslenska karlalandsliðið í blaki.
Íslenska karlalandsliðið í blaki. Mynd/aðsend
Blaklandslið karla og kvenna tekur þessa dagana þátt í Novotel-Cup mótinu í Lúxemborg en kvennalandsliðið vann fyrsta leik sinn á mótinu gegn Lúxemborg.

Íslenska karlaliðið mætir Lúxemborg, Sviss og Danmörku á mótinu en kvennalandsliðið mætir Lúxemborg, Danmörku og Liechtenstein á mótinu.

Mótið hófst í gær og vann kvennalandsliðið fyrsta leik sinn á mótinu 3-0 (25-22, 25-20 og 25-18) gegn Lúxemborg og var Elísabet Einarsdóttir stigahæst með 14 stig á meðan Thelma Dögg Grétarsdóttir bætti við 10 stigum.

Í karlaflokki mætti íslenska liðið Sviss í gær og þurftu strákarnir að sætta sig við tap 1-3 (24-26, 25-23, 17-25 og 11-25). Stigahæstur í íslenska liðinu var Kristján Valdimarsson með 15 stig en Magnús Ingvi Kristjánsson var með 9 stig í sínum fyrsta leik fyrir A-landsliðið.

Í dag léku bæði íslensku liðin gegn Danmörku en kvennalandsliðið lék fyrst en danska liðið vann sannfærandi 3-0 sigur (25-17, 25-12 og 25-19). Elísabet var stigahæst annan leikinn í röð með 12 stig en Thelma Dögg og Hjördís Eiríksdóttir komu næstar með sjö stig.

Í karlaflokki fékk íslenska liðið sömuleiðis 0-3 skell (19-25, 23-25 og 18-25) en stigahæstir í íslenska liðinu voru þeir Kristján Valdimarsson og G. Theódór Þorvaldsson með níu stig.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×