Handbolti

Guðmundur með Dani í milliriðil eftir nauman sigur

Tómas Þór Þórðarson skrifar
Guðmundur er kominn með danska liðið í milliriðla.
Guðmundur er kominn með danska liðið í milliriðla. vísir/afp
Guðmundur Guðmundsson og lærisveinar hans í danska landsliðinu komust í milliriðla á EM 2016 í handbolta í kvöld með naumum sigri á Svartfjallalandi, 30-28.

Danska liðið vann Rússa í fyrsta leik, 31-25, en það er eitt af sigurstranglegri liðum mótsins. Danir lentu þó í miklum vandræðum í kvöld.

Danir byrjuðu betur og voru einu marki yfir eftir tíu mínútur, 5-4, en þá tóku Svartfellingar frumkvæðið og voru tveimur mörkum yfir í hálfleik, 16-14.

Flestir bjuggust við því að Danir myndi stinga Svartfellinga af í seinni hálfleik og það stefndi í eitthvað slíkt þegar lærisveinar Guðmundar skoruðu fyrstu þrjú mörkin og komust í 17-16.

En svartfellska liðið gafst ekki upp og gaf stjörnum prýddum meistaraefnum danska liðsins ekkert eftir. Þegar seinni hálfleikur var hálfnaður var jafnt, 25-25.

Guðmundur Guðmundsson var ekki ánægður með sína menn og lét ofurstjörnuna Mikkel Hansen byrja á bekknum í seinni hálfleik. Hansen átti ekki góðan dag og skoraði aðeins tvö mörk í sjö skotum í fyrri hálfleik.

Þegar átta mínútur voru eftir tók Danmörk aftur frumkvæðið í leiknum með marki línumannsins Jespers Nöddesbo, en hann kom Dönum þá í 27-26. Nöddesbo kom Danmörku svo í 29-28 og tveimur mínútum fyrir leikslok gekk Henrik Töft Hansen frá sigrinum með 30. marki danska liðsins. Lokatölur, 30-28.

Vinstri hornamaðurinn Anders Eggert var markahæstur Dana með sex mörk úr sjö skotum en hjá Svartfjallalandi skoraði Nemanja Grbovic sjö mörk úr sjö skotum.

Danmörk mætir Ungverjalandi í lokaumferð D-riðils og tekur fjögur stig með sér í milliriðla með sigri þar.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×