Handbolti

Dramatískt jafntefli Slóvena og Spánverja

Tómas Þór Þórðarson skrifar
Julen Aguinagalde skorar eitt af sex mörkum sínum.
Julen Aguinagalde skorar eitt af sex mörkum sínum. vísir/afp
Slóvenar og Spánverjar skildu jafnir, 24-24, í frábærum leik í C-riðli Evrópumótsins í handbolta í dag.

Slóvenar spiluðu mjög vel í fyrri hálfleik, sérstaklega í vörninni og héldu Spánverjum í tveimur mörkum á fyrstu tíu mínútunum. Slóvenska liðið var þremur mörkum yfir í hálfleik, 13-10, en þegar seinni hálfleikurinn var hálfnaður komst Spánn í fyrsta skipti yfir, 19-18.

Síðustu mínúturnar voru ævintýralega spennandi, en Slóvenar voru tveimur mörkum yfir, 24-22, þegar þrjár og hálf mínúta var eftir.

Spánn minnkaði muninn í eitt mark og stal svo boltanum í næst síðustu sókn Slóveníu. Hornamaðurinn Christian Ugalde brunaði fram, skoraði og fiskaði rautt spjald á Vid Kavticnik, leikmann Slóveníu.

Slóvenar fengu 20 sekúndur til að vinna leikinn en spænska vörnin stóð sóknina af sér og jafntefli niðurstaðan. Spænska varnartröllið Gedeon Guardiola fékk einnig rautt spjald undir lokin.

Spánn er nú með þrjú stig í C-riðli eftir sigur á Þýskalandi í fyrstu umferð en Sóvenar eru í vandræðum, aðeins með eitt stig eftir tap gegn Svíþjóð í fyrstu umferð.

Luka Zvizej var markahæstur Slóvena með sex mörk úr sex skotum en línumaðurinn Jule Aguinagadel skoraði einnig sex mörk fyrir Spán úr sex skotum.

Þýskaland og Svíþjóð mætast í sama riðli í kvöld.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×