Handbolti

Björgvin: „Ég mun ekki eiga annan svona slæman leik“

Stefán Árni Pálsson skrifar
Björgvin átti ekki góðan dag.
Björgvin átti ekki góðan dag. vísir/getty
„Mér líður bara skelfilega,“ segir Björgvin Páll Gústavsson í samtali við Henry Birgi Gunnarsson, íþróttafréttamann 365, eftir tapið gegn Hvít-Rússum á Evrópumótinu í handknattleik í dag en leikurinn fór 39-38. Björgvin varði 11 skot í leiknum.

„Ég get allavega huggað mig við það að ég mun ekki eiga annan eins slæman leik og þennan í þessu móti. Ég var alltaf að lenda í vandræðum í þessum leik og allt of oft á hælunum.“

Björgvin segir að hver og einn leikmaður þurfi núna að skoða hvað þeir gerðu rangt í þessum leik.

„Þeir skora allt of auðveld mörk í þessum leik og það er okkur öllum að kenna. Ég hélt að við værum nú búnir að læra að vera ekki of kokhraustir en núna erum við bara enn einu sinni komnir með bakið upp við vegg og framundan er bara gamla góða íslenska leiðin.“

Hann segir að liðið hafi einfaldlega ekki verið klárt í þennan leik.

„Við þekkjum það vel að vera með bakið upp við vegg og þurfum bara að hugsa vel um þetta tap. Við megum alls ekki gleyma þessu tapi, við þurfum að læra af því.“

Ekki missa af neinu sem gerist á EM. Fylgdu Vísi á TwitterFacebook og Snapchat (notendanafn: sport365).




Fleiri fréttir

Sjá meira


×