Handbolti

Dagur: Ég vissi að leikurinn yrði framlengdur

Eiríkur Stefán Ásgeirsson skrifar
Dagur fylgist með sínum mönnum í kvöld.
Dagur fylgist með sínum mönnum í kvöld. Vísir/Getty
Dagur Sigurðsson kom skælbrosandi í viðtal við þýska sjónvarpið strax eftir sigurinn á Noregi í undanúrslitum EM í Póllandi, 34-33, í kvöld.

Þýskaland tryggði sér sigur í æsispennandi framlengdum leik og mætir annað hvort Spáni eða Króatíu í úrslitaleiknum á sunnudag.

„Þetta var eins og í glæpasögu,“ sagði Dagur. „En ég vissi að þetta myndi fara í framlengingu. Ég var búinn að skrifa það á töfluna,“ bætti hann brosandi við.

Sjá einnig: Dagur með Þýskaland í úrslitin á EM

„En þetta er ótrúlegt. Við vorum lengi undir og þetta var leikur sem bauð upp á allt. Maður sá að þetta stóð ansi tæpt,“ sagði Dagur og hann hrósaði sérstaklega þeim Kai Häfner, sem skoraði sigurmark leiksins, og Julius Kuhn en báðir voru kallaðir í hópinn um mitt mót.

„Það er kostur að hafa ferska fætur í svona leik. Svona leikmenn hafa oft betur í návígjum. Kai kemur inn með mjög hættuleg skot og stóð sig frábærlega.“

Hann segist skynja að gleðin og áhuginn er mikill í Þýskalandi. „En við reynum að halda einbeitingu. Leikmenn fara nú aftur upp á sitt hótelherbergi og við höldum áfram að undirbúa okkur fyrir næsta leik. Nú er bara einn eftir.“

Dagur hrósaði norska liðinu líka. „Þeir hafa náð svipuðum árangri og við og komið á óvart. Heppnin var bara með okkur í þessum leik. Ég ber mikla virðingu fyrir norska liðinu.“


Tengdar fréttir




Fleiri fréttir

Sjá meira


×