Erlent

Bóluefni við Zika-veirunni mögulega tilbúið fyrir árslok

Tryggvi Páll Tryggvason skrifar
Starfsmenn á vegum yfirvalda úða skordýraeitri til að fækka moskítóflugum á karnivalsvæðinu í Ríó de Janeiro.
Starfsmenn á vegum yfirvalda úða skordýraeitri til að fækka moskítóflugum á karnivalsvæðinu í Ríó de Janeiro. Vísir/AFP
Mögulegt er að bóluefni vegna Zika-veirunnar verði tilbúið fyrir lok ársins svo hægt verði að nota það í neyðartilvikum. Þetta segir vísindamaðurinn Gary Kobinger sem vinnur nú að gerð bóluefnis.

Kobinger vann meðal annars að því að þróa bóluefni sem gaf góða raun gegn Ebóla-veirunni í Gíneu og segir að bóluefnið sé auðvelt í framleiðslu og því verði hægt að framleiða það í miklu magni loks þegar það verður klárt. Komist bóluefnið í gegnum prófanir verði hægt að nota það í neyðartilvikum í október eða nóvember.

Sjá einnig: Spáir að allt að fjórar milljónir manna muni smitast af Zika-veirunni

Er þetta mun fyrr en bandarísk yfirvöld hafa áætlað. Hafa þau sagt að það muni taka mörg ár að þróa bóluefni við Zika-veirunni. Veiran smitast með moskító-flugum en mögulegt þykir að hún geti einnig smitast við kynmök. Veiran er flokkuð sem alvarleg ógn við heilsufar manna en talið er að hún geti valdið heilaskaða í nýburum. Alþjóðaheilbrigðismálastofnunin segir að veiran breiðist út með ógnarhraða og búið er að greina smit í bæði Svíþjóð og Danmörku.

Tvö fyrirtæki vinna nú að gerð bóluefnis í samvinnu við háskóla. Miðað við ummæli Kobinger er hann og hans teymi langt á undan öðrum en forstjóri lyfjafyrirtækisins Inovio sem er í samstarfi við Kobinger segir að það verði erfitt að ná markmiðum Kobinger en alls ekki ómögulegt.

Sjá einnig: Barnshafandi konur sérstakt áhyggjuefni

Um 80 prósent sem bera veiruna finna fyrir engum einkennum. Fyrir vikið er erfiðara fyrir barnshafandi konur að átta sig á því hvort þær séu smitaðar en yfirvöld í Mið-Ameríkuríkjum hafa farið fram á það að íbúar fresti barneignum vegna hættunnar sem veiran felur í sér.

Zika-veiran var fyrst greind í Úganda árið 1947, en hefur aldrei breiðst út með þeim hætti og nú er. Brasilísk yfirvöld tilkynntu um fyrstu tilfellin í Suður-Ameríku í maí síðastliðinn.


Tengdar fréttir




Fleiri fréttir

Sjá meira


×