Innlent

Barnshafandi konur sérstakt áhyggjuefni

Una Sighvatsdóttir skrifar
Guðrún Sigmundsdóttir settur sóttvarnalæknir
Guðrún Sigmundsdóttir settur sóttvarnalæknir
Zikaveirusýkingin er ný farsótt. Veiran uppgötvaðist fyrst í Afríku um miðja síðustu öld en sýkingar af henni hafa verið sjaldgæfar, þar til nú þegar veiran hefur á stuttum tíma greinst í 21 landi Suður- Mið og Norður-Ameríku. Alþjóðaheilbrigðismálastofnunin varaði í dag við því að hún muni berast víðar um álfurnar, en moskítóflugan sem ber hana þrífst í öllum löndum Ameríku nema Sjíle og Kanada.

Guðrún Sigmundsdóttir, settur sóttvarnalæknir, vekur athygli á því að ferðamenn geti borið veiruna með sér hingað til lands.

„Við erum ekki með vectorinn [ísl. smitberann] sjálf, sem er þessi moskítófluga. Þannig að þetta verður ekki landlægur sjúkdómur hér á meðan við erum ekki með þann vector. En það er sjálfsagt að vara fólk við, sem er að fara í ferðalög, svo það viti á hverju það þarf að vara sig.“

Eitrað fyrir moskítóflugum í Sao Paulo í Brasilíu.
Barnshafandi konur sérstakt áhyggjuefni

Varúðarráðstafanir felast fyrst og fremst í því að forðast moskítóbit. Engin bólusetning eða lækning er til, en almennt veldur zikaveirusýking aðeins vægum einkennum, svo sem hita og höfuðverk.

Vísbendingar eru þó um alvarlegri afleiðingar sýkist barnshafandi konur. Síðan í október í fyrra hafa hátt í 4000 börn í Brasilíu greinst með sjúkdóm sem kallast microcephaly eða smáheili. Þetta er sjaldgæfur heila- og taugasjúkdómur sem getur haft alvarleg áhrif á andlegan og líkamlegan þroska barna.

Enn á rannsóknarstigi

í 49 tilfellum í Brasilíu fæddust börnin andvana eða létust skömmu eftir fæðingu. Barnshafandi konur hafa því verið hvattar til að íhuga að fresta för til landa þar sem veiran hefur greinst þar til eftir fæðingu. Rétt er þó að taka fram að enn hefur ekki endanlega verið sýnt fram á að zikaveiran valdi fóstuskaða. Guðrún segir að unnið sé af kappi að því að safna gögnum.

„Þetta er mikið á rannsóknarstigi, en við erum með þessi mögulegu tengsl og það ætti að nægja til að maður hugsi sinn gang og sé ekki að útsetja sig í óþarfa hættu."


Tengdar fréttir




Fleiri fréttir

Sjá meira


×